132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Uppbygging álvera í framtíðinni.

[15:11]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vitna í umhverfisráðherra sem sagði í fréttum að það væri ljóst að ef stækkun í Straumsvík yrði eins og að var stefnt yrðu Íslendingar búnir að fylla í mengunarkvóta sinn í Kyoto-bókuninni og ekki yrði pláss fyrir fleiri álver nema með frekari mengunarkvótum eða stórfelldum samdrætti í mengun á öðrum sviðum.

Nú hef ég skilið hæstv. ráðherra þannig að hann hyggist beita sér fyrir því að Íslendingar fái frekari mengunarkvóta eftir 2012, en fyrir 2012 liggur alveg ljóst fyrir hvað við megum gera. Innan þess kvóta rúmast ekki allar þessar framkvæmdir. Það er því verið að draga þrjú fyrirtæki og þrjú sveitarfélög á asnaeyrum ef þeim er gefið undir fótinn með að fyrir þann tíma nái menn að fara í framkvæmdir í þessum sveitarfélögum. Innan kvótans rúmast annaðhvort stækkun eða eitt álver fram til ársins 2012. Er ekki rétt að segja það þá skýrt og vera ekki að láta menn gæla við þá hugsun að hér geti komið einhverjar framkvæmdir sem hvorki standast þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum gert né heldur þau markmið sem við höfum í hagstjórn?