132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Uppbygging álvera í framtíðinni.

[15:12]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Þetta er ósköp einfalt. Það liggur alveg ljóst fyrir að aðeins eitt af þessum fyrirtækjum telur líklegt að það geti lokið þessum framkvæmdum fyrir árið 2012. Það er varðandi álverið í Straumsvík ef samningar takast þá um það. Við vitum ekkert um það.

Að því er varðar bæði Alcoa og eftir því sem ég best veit Century líka eru uppi hugmyndir um að það verði síðar. Það hefur verið nefnt árið 2012 í því sambandi en það er hið alfyrsta. Þetta útilokar ekkert hvað annað, þ.e. ef menn hafa þá stefnu að vilja virkja frekar í landinu og nýta íslenskar auðlindar til að geta tekið þátt í því að minnka losun í heiminum. Ég vildi gjarnan heyra frá hv. formanni Samfylkingarinnar hvort hún telur rétt að við gerum það. Það skiptir að sjálfsögðu miklu máli fyrir þessi fyrirtæki að stór stjórnarandstöðuflokkur eins og Samfylkingin tali skýrt í þeim efnum.