132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Hækkun raforkuverðs.

[15:25]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að ég vorkenni dálítið hæstv. iðnaðarráðherra. Nú finnur hún sérstaklega að því að ég skuli koma með reikninga sem ég á sjálfur og nota þá í ræðustól. Ég hef ekki viljað koma með tölur frá öðru fólki. Hæstv. ráðherra, ég er ekki að tala um þessar krónur vegna þess að ég geti ekki greitt þær. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því, hæstv. ráðherra. En um breytingu er að ræða sem snýr að fleirum en þeim sem hér stendur, snýr að breytingu hjá því fólki sem býr í dreifbýli. Og það er svolítið kokhraust, hæstv. ráðherra, að koma hér aftur og aftur og nánast halda því fram að það hafi allir fengið lækkun sem á því þurftu að halda. Það á ekki við þann sem hér stendur að hann hafi þurft sérstaka lækkun til að eiga þetta hús. Ég var einfaldlega að vekja athygli á því að ég er með eigið dæmi um hvað hefur gerst, yfir 50% hækkun.