132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Hækkun raforkuverðs.

[15:26]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvað við eigum að fara nákvæmar ofan í reikninga hv. þingmanns en mér er kunnugt um að raforkuverð hjá Orkubúi Vestfjarða var almennt frekar lágt og að hækkað hafi um 50% hjá hv. þingmanni þarf kannski ekki að segja að hann greiði svo mjög háar upphæðir miðað við það sem gengur og gerist. En að ég hafi haldið því fram að allir hafi fengið lækkun er náttúrlega útúrsnúningur og ekki rétt því það hef ég aldrei sagt. Ég hef hins vegar sagt að margir hafi fengið lækkanir og við þurfum að ræða þetta frekar þegar umrædd skýrsla kemur til umfjöllunar. Og ýmislegt sem hefur komið fram nýlega af hálfu forstjóra orkufyrirtækjanna er náttúrlega rangt og ég get staðfest það hér að það eru kannski 2,5–3% af þeim hækkunum sem hafa orðið á suðvesturhorninu sem eru vegna nýju raforkulaganna og þá vegna þess að við vorum að útvíkka jöfnunarkerfið, við vorum að útvíkka flutningskerfið sem er einmitt jákvætt fyrir landsbyggðina.