132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Staða framkvæmda við Kárahnjúka.

[15:30]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra um stöðuna í virkjunarframkvæmdum við Kárahnjúka. Síðast í morgun lásum við í Morgunblaðinu að bor 2 sé aftur í erfiðleikum í sprungum í aðrennslisgöngum Kárahnjúkavirkjunar:

Hér segir, með leyfi forseta:

„Erfiðlega gengur að bora hluta aðrennslisganganna að Kárahnjúkavirkjuninni, og hefur bor 2 lent í talsverðum vandræðum undanfarnar þrjár vikur, sem gætu orðið þess valdandi að tafir verði á því að fyrsta vélin verði sett í gang, en áætlun gerir ráð fyrir gangsetningu hennar í apríl 2007.“

Nú er það auðvitað engin tilviljun að apríl 2007 er dagsetningin sem kemur aftur og aftur upp í þessari umræðu, mánuði fyrir komandi alþingiskosningar, frú forseti. Það er þess vegna vert að spyrja hvort menn hafi ekki samið af sér þegar samið var við álrisann ameríska, Alcoa, um að orkan ætti að vera tilbúin á þessum tíma. Og ég spyr því: Er ekki eðlilegt að fresta þessari gangsetningu nú þegar, og hvað kostar það þá Landsvirkjun? Við vitum að kostnaðurinn við þetta allt hefur farið fram úr öllum áætlunum, langt fram úr áætlunum, og talað er um að við séum orðin mörgum mánuðum á eftir áætlun í þessum efnum. Hverju svarar, frú forseti, hæstv. iðnaðarráðherra þessum málum? Getur hún gert þingheimi grein fyrir stöðunni við Kárahnjúka?