132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Staða framkvæmda við Kárahnjúka.

[15:32]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þingmaður hefur áhyggjur af því að ekki verði hægt að gangsetja virkjunina nægilega snemma. Það er raunar mál sem ég hefði líka áhyggjur af ef útlit væri fyrir það. Hins vegar held ég að þetta sem við erum að lesa í dagblöðum í dag sé ekki nein sönnun þess að ekki verði hægt að standa við áætlanir. Það hafa áður verið hrakspár á ferðinni í sambandi við þessa framkvæmd. Ég heyri að hv. þingmaður er farinn að kvíða fyrir næstu kosningum. Það er hins vegar ekki þannig með mig því að ég veit að það mun allt saman ganga vel.

Nú er það ekki þannig að ég sé í samningum um hvert einasta atriði sem varðar þessa framkvæmd. Landsvirkjun semur við Alcoa, eða Alcoa við Landsvirkjun, um orkuþáttinn. Að sjálfsögðu er farið eftir ákveðnu plani hvað það varðar og tímaáætlunum, og ef allt gengur eftir verður hægt að gangsetja þarna í apríl 2007, sem er vissulega vel heppnuð dagsetning.

Að kostnaður hafi farið fram úr öllum áætlunum held ég að sé ekki rétt hjá hv. þingmanni, ég held að þetta sé allt saman í býsna góðu lagi og ég er ákaflega stolt yfir því að þetta gengur vel. Ég vona að hv. þingmaður hafi farið nýlega austur á land og séð þær gríðarlegu framkvæmdir og bjartsýni sem þar ríkir út af þessum framkvæmdum, bæði niðri á fjörðum og uppi á Héraði. Þetta er nýtt líf fyrir Austfirðinga og það er ekki vinstri grænum að þakka.