132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Staða framkvæmda við Kárahnjúka.

[15:33]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Býsna vel heppnuð dagsetning, segir hæstv. iðnaðarráðherra og er greinilega í feikigóðu skapi í dag, nýkomin frá Norðurlandi með einhverja trúboðsfundi um næstu álver þar.

Ég er hérna með skýrslu um mat á umhverfisáhrifum, frú forseti, og mig langar til að vitna aðeins í hana.

Þar stendur:

„Jarðfræðirannsóknir skipa jafnan veglegan sess við undirbúning vatnsaflsvirkjana. … Slíkar rannsóknir á virkjunarsvæðinu norðan Vatnajökuls hófust fyrir um 30 árum og telja verður að svæðið sé vel rannsakað og kortlagt.“

Hvað kemur síðan í ljós? Svæðið er hvorki vel rannsakað né kortlagt. Það eru alltaf að koma í ljós ný og ný misgengi og það er verið að dæla þúsundum tonna af steypu ofan í þessar sprungur til að hægt sé að bora í gengum þetta. Hvernig væri að bora sig út úr þessari vitleysu og hætta við þetta eða fresta þessu a.m.k. um góðan tíma? Það er skynsamlegasta ákvörðunin sem hægt er að taka í dag, frú forseti.