132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[16:08]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða á þskj. 672, 448. mál. Í frumvarpinu er kveðið á um allnokkur efnisatriði sem ég ætla að fara yfir í stuttu máli.

Í 1. gr. laganna er lagt til að fella niður 6. gr. gildandi laga en hún lýtur að dagakerfi krókabáta sem fellur niður í lok þessa fiskveiðiárs. Eins og menn vita var gengið til þess verks að breyta lögum í þá veru að dagakerfi svokallað var fellt úr gildi en í staðinn fengu þessir bátar úthlutað ríflegum kvótum að mati margra og þess vegna átti þetta að taka gildi á nokkrum tíma. Það er nokkur aðlögunartími og nú er honum sem sagt að ljúka og þess vegna er lagt til að 6. gr. verði felld brott.

Í öðru lagi er lagt til að sett verði hámark á samanlagða krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila. Samkvæmt 1. mgr. í 11. gr. a eru þær takmarkanir á samanlagða aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila í fimm helstu tegundum botnfisks auk síldar, loðnu og úthafsrækju og miðast hámarkið við 12% í þorski, 35% í karfa en 20% í öðrum tegundum.

Þá segir í 3. mgr. sömu greinar að samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa megi aldrei nema meiru en 12% af heildarverðmæti aflahlutdeildar allra tegunda sem sæta ákvörðun um heildarafla. Fyrrgreind takmörkun tekur einnig til krókaaflahlutdeildar að því leyti að við útreikning á heildaraflahlutdeild reiknast krókaaflahlutdeild með. Hér er hins vegar lagt til að auk þessa verði sett sérstakt hámark á samanlagða krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila. Lagt er til að hún verði 6% í þorski, 9% í ýsu og 6% af heildarverðmæti krókaaflahlutdeildar þeirra tegunda sem krókaaflahlutdeild er úthlutað í.

Ljóst er að mikil sameining krókaaflahlutdeildar hefur orðið og ástæða þykir þess vegna til að setja þær takmarkanir sem hér er lagt til þannig að krókaaflahlutdeildin dreifist á fleiri fyrirtæki og þar með sjávarbyggðir. Í lokamálsgrein 11. gr. a í lögunum um stjórn fiskveiða er skilgreining á því hvort aðilar teljist tengdir og jafnframt er í 11. gr. b tekið á því hvernig við skuli brugðist þegar aflahlutdeild fiskiskipa aðila fari umfram þau mörk sem hér er lagt til að sett verði.

Í sjálfu sér þarf ekki að hafa mjög mörg orð um þetta. Þessi mál hafa verið talsvert rædd og sú þróun sem hér er í rauninni verið að bregðast við hefur átt sér stað býsna hratt. Yfir þessi mál var farið á síðasta hausti og eftir athugun taldi ég ekki ástæðu til að leggja fram frumvarp í þessa veru þá vegna þess að það gerir maður í síðustu lög að koma í veg fyrir að menn geti þróað útgerð sína með skynsamlegum og hagkvæmum hætti og vil ég ekki bregða fæti fyrir það og ekki er verið að gera það með frumvarpi þessu. En hins vegar hefur þróunin verið býsna hröð og þegar við vorum að búa til lögin í kringum smábátakerfið var alltaf gert ráð fyrir því, og það var pólitískt markmið í sjálfu sér sem ég held að allir hafi verið sammála um, að mjög mikilvægt væri að eignaraðildin í smábátakerfinu væri býsna dreifð, bæði vegna þess að það er skynsamlegt í sjálfu sér að eignaraðild sé dreifð en líka vegna þess að það mun ásamt öðru stuðla að því eða a.m.k. ýta undir að það fiskveiðistjórnarkerfi sem var búið til með hagsmuni hinna dreifðu byggða fyrir augum, að aflahlutdeildirnar og aflaheimildirnar, rétturinn til fiskveiða sé dreifðari heldur en hann væri ef þetta þróast í þá átt sem maður gæti ella séð fyrir sér og kynnu að vera einhverjar vísbendingar um.

Þegar þessi mál eru skoðuð er það ekki svo að margar útgerðir séu út af fyrir sig með mjög stórar aflahlutdeildir. Það er fyrst og fremst ein útgerð sem er eitthvað nálægt því þaki sem hérna er verið að kveða á um en aðrar útgerðir eru miklu lægri, kringum 2% og þaðan af lægra. Það er því ekki þannig að engin dreifing sé í þessu kerfi. Með frumvarpinu er einfaldlega verið að reyna að stuðla að og tryggja tiltekna þróun. Þess vegna er þetta ekki frumvarp sem í sjálfu sér breytir núverandi ástandi í miklum mæli heldur mun fyrst og fremst hafa áhrif á framtíðarákvarðanir manna.

Menn velta fyrir sér hvort nægilega sé fyrir öllu séð varðandi hugtökin tengdir aðilar o.s.frv. Þá vitna ég til þess að við höfum nokkra reynslu af álíka löggjöf og sú löggjöf hefur virkað býsna vel. Við sjáum það og ég minnist þess raunar að þegar þetta var á sínum tíma leitt í lög voru margir sem sögðu: Þeir verða fljótir að sjá leiðir í þessum efnum. En reynslan hefur verið sú að þetta fyrirkomulag, sú pólitíska nálgun sem þá var gerð á þessum málum hefur í meginatriðum fúnkerað býsna vel og við sjáum það einfaldlega á þeim tölum um aflahlutdeildir sem liggja til grundvallar einstakra útgerða.

Í þriðja lagi er lagt til í þessu frumvarpi að unnt verði að flytja aflamark milli fiskiskipa með einfaldari hætti heldur en tíðkast núna. Í 1.–3. mgr. 12. gr. laga um stjórn fiskveiða eru ákvæði um hvernig staðið skuli að flutningi aflamarks milli skipa. Fiskistofa hefur haft til athugunar hvernig auðvelda megi flutning á aflamarki milli fiskiskipa með rafrænum tilkynningum frá flutningsbeiðanda. Við flutning aflamarks milli skipa þarf ýmsum skilyrðum að vera fullnægt sem er á ábyrgð Fiskistofu að fylgt sé. Til þess að tryggja öryggi þessa kerfis þarf Fiskistofa að gera sérstakan þjónustusamning við þá sem aðgang fá að kerfinu þar sem þeir fá m.a. lykilorð sem veitir þeim heimild til flutnings aflamarks milli báta. Í upphafi er gert ráð fyrir að aðgangur veiti útgerðarmönnum aðeins heimild til að flytja milli eigin báta en þegar kerfið þróast þá geti heimild til flutnings aflamarks orðið víðtækari. Í stað greiðslu fyrir hverja tilkynningu um flutning aflamarks er lagt til að greiddar verði 12.000 kr. árlega fyrir þjónustusamninginn. Gjald fyrir hverja færslu Fiskistofu á aflamarki er 2.000 kr. og hefur Fiskistofa innheimt um 20 millj. kr. árlega vegna þessarar þjónustu við útgerðina.

Ef frumvarpið verður samþykkt svona er ljóst að það mun hafa áhrif á fjárhag Fiskistofu en það hlýtur einnig að leiða af eðli máls að það gefur Fiskistofu fullt svigrúm til að hagræða á móti vegna þess að þarna er verið að færa verkefni sem áður voru einfaldlega unnin á Fiskistofu til útgerðanna og þær sjái um þetta. Þetta er bara hluti af okkar nútímavæðingu og þeirri þróun sem alls staðar er. Þetta er ekkert ósvipað því sem við sjáum einfaldlega gerast í bankakerfinu. Menn láta tilflutninga af reikningum og milli reikninga gerast gegnum heimabanka og þetta er á vissan hátt gert með sama hætti. Þetta er bara sjálfsagt hagræðingarmál sem við þurfum hins vegar að vanda okkur við. Reynt er að gera það og beita þeim rafrænu takmörskunum sem til staðar eru og við þekkjum í daglegu lífi okkar.

Í fjórða lagi er lagt til að gerðar verði tvær tímabundnar lagabreytingar vegna þeirra erfiðleika sem hafa komið upp í veiðum og vinnslu á úthafsrækju. Nýlega hefur verið kynnt skýrsla um ástandið í þessum iðnaði og ég nefndi í umræðu fyrir nokkru, mjög lítillega þó. Ástand úthafsrækjustofnsins hefur verið mjög lélegt og hefur Hafrannsóknastofnun aðeins lagt til að veiddar verði 10 þúsund lestir af úthafsrækju á yfirstandandi fiskveiðiári. Mikil óvissa er um veiðimöguleika á næstu árum, léleg veiði og markaðsaðstæður hafa leitt til þess að leyfilegur afli í úthafsrækju hefur ekki verið nýttur síðustu ár og það er ljóst að á þessu ári dregur enn úr veiðinni. Síðast var rækju af Íslandsmiðum landað hér í lok september og því miður hef ég ekki neinar vísbendingar um að rækjuveiðar séu að hefjast að nýju.

Til að létta undir með veiðum og vinnslu á úthafsrækju er lagt til að eftirfarandi breytingar verði gerðar sem gildi fyrir yfirstandandi fiskveiðiár og tvö næstu.

1. Vannýting á úthlutuðum aflaheimildum í úthafsrækju leiði ekki til þess að skip missi aflahlutdeild sína í úthafsrækju eða öðrum tegundum. Eins og kunnugt er segir í 12. gr. laga um stjórn fiskveiða að veiði skip minna en 50% af samanlögðu aflamarki sínu í þorskígildum talið tvö fiskveiðiár í röð þá falli aflahlutdeild þess niður. Hér er lagt til að í ár og næstu tvö fiskveiðiár verði þessi veiðiskylda tekin úr sambandi ef svo má segja varðandi úthafsrækjuna. Hins vegar nýtist rækjuveiðar til að fullnægja veiðiskyldu sem er á öðrum tegundum.

Ég vil taka það skýrt fram að í þessari ákvörðun felst ekki nein stefnumótandi ákvörðun um að minnka veiðiskylduna almennt. Þarna er einfaldlega verið að bregðast við mjög sértækum vanda. Ef við gerðum þetta ekki kynnu útgerðir, sem eru með mikla rækjukvóta en litlar heimildir í öðrum tegundum, að lenda í því að geta ekki nýtt kvóta sína og mundu þá missa aflahlutdeild sína.

Auðvitað má segja að menn geti alltaf brugðist við svona hlutum með einhverjum aðgerðum en það er miklu eðlilegra að við einfaldlega horfumst í augu við þennan veruleika, þennan vanda sem við skulum vona að sé tímabundinn og muni lagast. Þess vegna er lagt til að þessar breytingar verði gerðar á lögunum til þess að menn þurfi ekki að fara út í aðgerðir — að lögin geri það að verkum að menn geti unnið með skynsamlegum hætti innan þeirra vébanda.

Í annan stað er lagt til að veiðigjald fyrir úthafsrækju verði greitt eftir á miðað við landaðan úthafsrækjuafla í lok fiskveiðiárs næstu þrjú árin en ekki innheimt í upphafi fiskveiðiárs miðað við úthlutað aflamark. Þar sem 10 þúsund tonnum af úthafsrækju hefur verið úthlutað á yfirstandandi fiskveiðiári hefur álagning veiðigjalds fyrir þær aflaheimildir þegar farið fram. Er gert ráð fyrir að sú álagning, sem nemur um 10 millj. kr., verði felld niður og endurgreidd og síðan greiði útgerðir í lok fiskveiðiárs veiðigjald miðað við úthafsrækjuafla hvers skips í lok þess árs. Hér er með öðrum orðum verið að reyna að létta veiðigjaldinu af rækjuútgerðinni. Þetta er auðvitað ekki há upphæð, þetta eru 10 millj. kr., en það sjá auðvitað allir í hendi sér að það er óréttlæti í því fólgið að aðilar sem greiða fyrir fiskveiðirétt sem ekki er hægt að nýta, bæði af efnahagslegum og líffræðilegum ástæðum, þurfi að borga fyrir þann veiðirétt. Það er þekkt í fiskveiðistjórnarlögunum að við einstaka veiðistofna greiða menn af lönduðum afla en ekki úthlutuðum aflaheimildum. Fyrst og fremst er auðvitað um að ræða tímabundna aðgerð. Horfið er frá þessu prinsippi að því leyti að úthlutunin kalli á greiðslu en ef menn veiða þá greiða menn gjald í samræmi við það. Þetta er auðvitað líka hugsað sem tímabundin aðgerð. Það kom ýmislegt til álita í þessum efnum, hvernig ætti að fara að þessum breytingum, en eftir að við höfðum farið yfir þessi mál þótti skynsamlegast að gera þetta með þessum hætti.

Ég vil líka undirstrika það að þær tvær tillögur sem hér eru lagðar fram eru í samræmi við þær tillögur sem fyrrgreind nefnd, sem fór yfir stöðuna í rækjuveiðum og -vinnslu, lagði til. Þessar tillögur eru í samræmi við það.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. sjávarútvegsnefndar og 2. umr.