132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[16:26]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vitaskuld gæti það komið til greina sem hv. þm. Kristján L. Möller var að spyrja um að við mundum úthluta á grundvelli 9. gr. aflabótum til úthafsveiðiflotans. Það yrði þá að gerast í samhengi við úthlutun á nýju fiskveiðiári. Ég vil lýsa því yfir skýrt og skorinort að ef til þess kemur þarf að sjálfsögðu að taka um það pólitíska ákvörðun að auka úthlutanir til slíkra sértækra bóta. Það væri ekki hægt að gera það með þeim hætti að skerða bætur sem núna eru veittar til innfjarðarflotans eða til byggðarlaga sem eru í nauðvörn. Menn yrðu að ganga að því með opnum huga og opnum augum, átta sig á því að það yrði þá að skerða aflamarkið að öðru leyti og færa til þess flota þar sem þarna er um að ræða sérstakar aflaheimildir. Þeir sem hafa uppi óskir um slíkt verða þá að gera sér grein fyrir því.

Auðvitað kæmu alls konar annmarkar upp við slíkar aðstæður, meðal annars þeir að þessi floti, þ.e. rækjuflotinn, hefur aldrei lagt til aflaheimildir í þessar uppbætur. Það er eingöngu botnfiskflotinn, þ.e. þau skip sem eru með þessar fjórar eða fimm tegundir, sem við notum í þessar bætur. Það má velta því fyrir sér hvort það sé sanngjarnt að þeir sem aldrei nokkurn tíma hafa lagt til þessara bóta úr sínum kvóta að þessu leytinu, þ.e. rækjukvótanum, fái aflabætur sem mundu síðan valda skerðingu annars staðar.

Þegar við skoðum hverjir það eru sem eru með aflaheimildirnar í rækjunni þá er það þannig að fimm útgerðir, Þormóður rammi, Íshaf, Brim, Hraðfrystihúsið Gunnvör og Samherji, eru með 58% af bótunum. Þeir eru auðvitað mjög stórir almennt talað í bolfiskinum líka þannig að mér sýnist af þessu augljóst að slíkt yrði sennilega í meira mæli en í flestum öðrum tilvikum alger tilfærsla úr hægri vasa í vinstri vasa eða öfugt. Ég held að við yrðum að skoða þetta mál algerlega í grunninn. Við yrðum að skoða það alveg til enda hvaða áhrif það hefði fyrir þessar útgerðir m.a., ef farið yrði að úthluta meiri aflaheimildum í þessar bætur og þeim síðan úthlutað til rækjuveiðiskipanna.