132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[16:33]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurningin um það hvort þetta ákvæði varðandi rækjuna hafi verið skoðað ítarlega með tilliti til þess hvort það standist stjórnarskrá þá get ég játað að það var ekki skoðað ítarlega. Það var skoðað þannig að við sem stóðum að frumvarpinu, og ég sem sjávarútvegsráðherra, vorum auðvitað sannfærðir um að ákvæðið stæðist stjórnarskrána. Hér er um að ræða bráðabirgðaákvæði sem á að standa í mjög skamman tíma og frumvarpið kveður á um hvenær þessu ástandi á að ljúka. Ég lagði áherslu á það, m.a. í framsöguræðu minni, að hér væri ekki um að ræða neina prinsippbreytingu, heldur væri eingöngu verið að bregðast við með tilteknum hætti við tilteknar aðstæður og ástæðan er auðvitað sú sem ég greindi hér frá og það vandamál sem við þekkjum að menn geta lent í því að missa frá sér veiðiréttinn og þar með atvinnuréttinn. Auðvitað er kveðið á um það í stjórnarskránni að standa skuli vörð um atvinnuréttindi fólks og það hefur sína þýðingu líka. Ég tel að það sé engin spurning, fyrir utan það að fyrir því eru auðvitað öll sanngirnisrök að svipta menn ekki atvinnuréttindum með þessum hætti við þessar aðstæður. Við eigum þá að reyna að breyta lögunum á þann veg að menn geti varið sig gagnvart því.

Varðandi rafrænu tilkynningarnar þá sé ég ekki að sú breyting geti haft nokkur áhrif á það sem hv. þingmaður var að tala um. Fiskistofa hefur alla möguleika á að fylgjast með þessu máli. Gert er ráð fyrir að menn sæki um sérstakt lykilorð og Fiskistofa getur síðan kallað eftir öllum þessum upplýsingum, m.a. allar upplýsingar um það þegar menn eru með tilfærslur á milli sín, og þegar fram í sækir annarra útgerða. Við erum einfaldlega að nýta okkur þær breytingar sem eru orðnar, þær framfarir sem eru orðnar. Það er engin ástæða til að þetta fari í gegnum Fiskistofu í Hafnarfirði þegar hægt er að gera þetta með rafrænum hætti eins og við þekkjum og eins og tíðkast í öllum slíkum samskiptum og viðskiptum manna á meðal.