132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[16:37]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefði valdið nokkrum vonbrigðum ef hv. þingmaður hefði ekki setið við sinn keip í þessu efni. Það er einfaldlega svo að við höfum það fyrirkomulag að úthluta aflaheimildum og þar með veiðirétti og þegar þannig stendur á, eins og gerist núna, að af líffræðilegum og efnahagslegum ástæðum geta menn ekki nýtt sér aflaheimildirnar þá sé bara ósköp eðlilegt, virðulegi forseti, að það leiði ekki til þess að menn tapi veiðirétti varanlega. Er það þetta sem hv. þingmaður er að tala um? Þær aðstæður eru uppi á öðrum sviðum og við höfum reynt að verja það að menn geti haldið veiðirétti sínum, t.d. varðandi innfjarðarrækjuna. Við höfum gert það á þann hátt að úthluta þeim aflabótum (Gripið fram í.) til að tryggja að þeir geti síðan haldið atvinnurekstri sínum áfram. Það er það sem verið er að gera hérna. Mér finnst mjög undarlegt að hv. þingmaður skuli, til að reyna að koma fram sínum annarlegu sjónarmiðum í fiskveiðimálum, leggjast sérstaklega á þá menn sem standa verst í útgerð við þessar aðstæður, menn sem geta ekki sótt rækjuna og eiga í bullandi erfiðleikum og hv. þingmaður ætti að vita að það bitnar m.a. á byggðunum okkar. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður ætti að láta sér sæma að vega ekki sérstaklega að þeim mönnum sem liggja nú flatir vegna erfiðleikanna.