132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[16:46]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Enn einu sinni stöndum við hér og ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Ég hef áður bent á að fá lög í þessu landi taka eins oft breytingum og kannski eins miklum breytingum á tiltölulega skömmum tíma og þessi lög sem sett voru á árinu 1990.

Því hefur oft verið haldið fram, og ég er alveg sammála þeim rökum, að þegar menn ræða um málefni sjávarútvegsins og stjórn fiskveiða þurfi þeir að geta horft tiltölulega langt fram í tímann og velt fyrir sér hvernig rekstrarumhverfi og slíkt verði í framtíðinni. Því verður maður að segja að oft og tíðum er ástæða til að verða hissa þegar þeir sömu tala um nauðsyn þess að stöðugleiki ríki í greininni og umhverfi hennar og að það sé nauðsynlegt að þeir sem stundi útveg og útgerð horfi fram á ákveðna festu í greininni til að þora að hætta fé sínu og skipuleggja sig til framtíðar.

Ég taldi saman að gamni mínu breytingarnar sem gerðar hafa verið á þessum lögum núna — ég prentaði þau út til að hafa þau hér til hliðar meðan við erum að ræða frumvarpið — og ég sé að á lögunum er búið að gera 35 breytingar á þeim 15 árum sem liðin eru frá því að þau voru samþykkt. Enn liggja fyrir sjávarútvegsnefnd tvær breytingar á lögunum sem verið er að fara yfir þannig að þetta eru mögulega 37 eða 38 breytingar á fiskveiðistjórnarlögunum á 15 árum, þ.e. yfir tvær breytingar á ári. Ég held að menn ættu að hætta að hreykja sér af miklum stöðugleika og litlum breytingum í umhverfi greinarinnar þegar lögunum um greinina er breytt eins oft og raun ber vitni.

Þegar stjórnað er með aflamarkskerfi eins og við gerum hér hafa menn orðið sammála um það, frú forseti, að nauðsynlegt sé að takmarka stærð einstakra aðila eða skyldra aðila í þessum potti sem við höfum. Sá sem hér stendur tekur undir það. Það er alveg nauðsynlegt fyrir okkur í þessu kerfi að hafa einhverja varnagla sem koma í veg fyrir að aflaheimildirnar eða heimildirnar til að sækja fiskinn í sjónum í kringum landið safnist á mjög fáar hendur.

Við vitum takmarkanirnar sem eru í stóra kerfinu eða aflamarkskerfinu fyrir stærri skipin og það hefur verið nokkur sátt ríkjandi um þær prósentur sem þar eru. Það er hámark á öllum þeim tegundum sem eru í kvótanum, 12% í þorskinum en síðan 20% í ýsu og ufsa, og 35% í karfanum. Aðrar tegundir, eins og grálúða, síld, loðna og úthafsrækja, eru með 20% hámarksaflahlutdeild einnar útgerðar eða skyldra aðila.

Slíkar takmarkanir hafa í raun ekki verið eingöngu fyrir krókaaflamarkskerfið og smábátana og algerlega hefur vantað í sjálfu sér að setja slíkar reglur. Við erum með tvö kerfi og mér hefur virst almenn sátt á Alþingi um það að meðan fiskveiðum er stjórnað með þeim hætti sem um ræðir vilji menn ekki að hægt sé að sameina þessi tvö kerfi, þ.e. að smábátarnir geti runnið inn í aflamarkskerfið og að enginn munur sé á kvóta, hvort sem er í smábátakerfinu eða hinu stærra.

Hæstv. ráðherra velur þá leið að leggja fram frumvarp þar sem fleiri atriði eru hengd á þetta eina atriði sem ég gerði að umræðuefni. Ég ætla að reyna, frú forseti, að halda mig kannski að mestu í minni fyrri ræðu við 2. gr. og það sem þar er en þó getur vel verið að úr því að við fengum greinargóð svör við stuttu andsvari mínu við ráðherra áðan að ekki þurfi að ræða hlutina í eins miklum smáatriðum í 1. umr. hvað varðar 2. gr. eins og annars hefði kannski þurft að gera.

Af hverju erum við með sérkerfi fyrir smábátana? Það hefur þróast á þessum tíma í kvótakerfinu okkar að þessi leið hefur verið sú sem menn hafa séð skásta til að reyna að efla sjávarbyggðirnar og gefa mönnum kost á því að sækja sjóinn vítt og breitt kringum landið. Það var til langs tíma nánast eini möguleiki þeirra sem hugðu á útgerð og vildu hasla sér völl að fara inn í smábátakerfið, inn í dagakerfið meðan það var við lýði, og þar þurfti minnst fjármagn og minnstu að hætta til til að fara inn í það kerfi ef við berum það saman við stóra kerfið. Alltaf hefur verið talað um að nauðsynlegt væri fyrir okkur að reka þetta kerfi með þeim hætti að þetta safnaðist ekki á tiltölulega fáar hendur og að þetta væri útvegur sem byggðirnar, og sérstaklega smærri byggðirnar, hringinn í kringum landið stóluðu mikið á og þyrftu að hafa aðgang að.

Með þeirri breytingu sem gerð var þegar sóknardagakerfið var lagt af vissu allir sem fóru í gegnum þá umræðu að mjög margir útgerðarmenn smábáta mundu selja þennan kvóta í hendur annarra þegar búið væri að takmarka þetta í kílóum og ekki dögum lengur. Sá sem hér stendur var ekki fylgjandi því að breyta úr dagakerfinu í smábátunum yfir í kvótakerfi, einfaldlega vegna þess að það lá alveg fyrir hvað mundi gerast. Þeir horfðu kannski fram á það að krókaaflamarkið þeirra væri ekki meira en svo að það borgaði sig ekki að gera út á það, enda hefur orðið ansi mikil fækkun. Það hefur fækkað um meira en 100 báta í kerfinu frá því að þessi breyting var gerð og það munar um minna þegar við horfum á heildartöluna á þessum bátum. Á fyrsta ári frá því að breytingin var gerð fækkaði um 108 báta sem hættu að gera út og létu kvótann sinn í hendurnar á öðrum. Það lá alveg fyrir að þetta gerðist mjög hratt, smábátunum fækkaði og útgerðunum sömuleiðis, bátarnir stækkuðu jafnvel líka og urðu fullkomnari þannig að auðvitað horfðum við sem höfum viljað sjá smábátakerfið um allt land upp á það að miðað við óbreytt lög gæti ástandið á mjög skömmum tíma orðið þannig að það yrðu, eins og lögin gerðu ráð fyrir, einungis jafnvel tveir útgerðaraðilar sem ættu nánast allan krókaaflamarkskvótann. Ég held að ekkert okkar sem erum á þingi hafi viljað sjá slíkt. Hvort sem menn eru sammála núverandi fiskveiðistjórnarkerfi eða hvernig það er rekið held ég að enginn hafi viljað hafa þá framtíðarsýn að tveir útgerðarmenn eða tvö stór fyrirtæki hefðu yfir að ráða öllum smábátakvótanum á Íslandi.

Á fyrsta árinu sem leið frá því að dagakerfið var lagt af og kvótakerfið tekið upp skiptu yfir 2 þús. tonn af þorski um eigendur að þorskkrókaaflamarki. Í þorskígildistonnum voru þetta yfir 5 þús. tonn þannig að þetta gerðist ekkert hægt og hljótt. Í þorskinum erum við að tala um 36 þús. tonn ef ég man rétt en þarna skiptu 2 þús. tonn nánast á augnabliki um eigendur.

Ég velti því upp í umræðu á þingi 3. nóvember á síðasta ári hvort menn hefðu ekki af þessu áhyggjur og hvort ekki væri nauðsynlegt fyrir okkur að bregðast við og setja inn í lögin frekari takmarkanir á hámarkseign aðila sem gerðu út smábáta. Mjög fljótlega heyrði ég að fleiri tóku undir þessa skoðun mína og auðvitað höfðu fleiri af þessu áhyggjur en ég. Menn veltu fyrir sér hvar ætti í raun og veru að setja þetta þak. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan að þau 6% í þorski sem ráð er fyrir gert hér og síðan 9% í ýsu væru ekki neinar hávísindalegar tölur, þetta væru ekki tölur sem hefðu komið út úr einhverju reiknilíkani hjá Hafrannsóknastofnun eða Fiskistofu. Þetta eru talin skynsamleg mörk, væntanlega af þeim sem setja fram frumvarpið, bæði með það í huga að ekki yrðu of fáir útgerðarmenn í þessum útgerðarflokki og kannski ekki síður, sem við þurfum líka að hugsa um, að hámörkin í þessum flokki frekar en öðrum mega ekki verða það lág að enginn geti gert út, hverjum einasta útgerðarmanni eða fyrirtæki sé gert gersamlega ókleift að gera út í smábátakerfinu. Allir þurfa að hafa ákveðinn fót til að standa á til að geta gert út með árangri.

Ég er sammála hv. þm. Hjálmari Árnasyni að sjávarútvegsnefndin hlýtur að þurfa að skoða þessar prósentur. Þetta er helmingur í þorski miðað við stóra kerfið, þetta er innan við helmingur í ýsunni, kannski spurning um að velta fyrir sér af hverju það, af hverju gildi þá ekki sú regla sem sett er í þorskinum að þetta sé bara helmingur af því sem gildir í stóra kerfinu. Þegar við förum yfir listana yfir tegundirnar í stóra kerfinu velta menn líka fyrir sér hvort ekki væri full ástæða til að taka allar tegundir í krókaaflamarki inn í þetta og setja hámörk með sama hætti og gengur í hinu stærra.

Síðan er það spurningin um afturvirknina. Menn gera plön og skipuleggja rekstur sinn til framtíðar eins og þeir best kunna hverju sinni. Ég var ánægður með að heyra það hjá hæstv. ráðherra að enginn virðist vera kominn í þau hámörk sem hér eru lögð til þannig að væntanlega er ekki verið að hafa rétt af nokkrum manni með því að bæta þessu við. Við megum náttúrlega ekki gleyma því að í sjálfu sér má flytja fisk niður á milli kerfa þó að ekki megi flytja hann upp þannig að þeir sem vilja og geta geta náttúrlega keypt sér hlutdeild í stærra kerfinu og flutt hana niður í smærra kerfið og þannig á einhvern hátt reynt að ná þeirri viðbót sem þarf til að gera útgerðina nægilega hagkvæma.

Maður veltir þó fyrir sér varðandi þennan tíma að ansi langur tími er liðinn frá því að við byrjuðum að velta þessu upp, frá því að byrjað var að ræða þetta á Alþingi og byrjað að ræða við hagsmunaaðila. Það er búið að taka nóvember-, desember- og janúarmánuð að koma fram með frumvarp og það væri gaman að skoða það í sjávarútvegsnefndinni þegar þar að kemur hver þessi mörk voru um það leyti sem umræðan byrjaði og hæstv. sjávarútvegsráðherra og sjávarútvegsráðuneytið byrjuðu að ræða við hagsmunaaðila, hvort eitthvert stórt hlaup hafi orðið á þeim tíma, hvort einhverjir aðilar hafi hlaupið til og reynt að tryggja sér meiri heimildir og hærra mark í þessu kerfi en þeir höfðu á þeim tíma þegar við byrjuðum að ræða þetta.

Í reglugerð sem hæstv. sjávarútvegsráðherra setti 4. ágúst 2005, reglugerð nr. 724, er fjallað um veiðar í atvinnuskyni fyrir fiskveiðiárið 2005/2006. Þar segir að bátum sem leyfi hafa til veiða með krókaaflamarki skuli úthlutað krókaaflamarki í þorski, ýsu, ufsa, steinbít, löngu, keilu og karfa á grundvelli krókaaflahlutdeildar þeirra. Þarna er búið að tína upp allar þær tegundir sem um ræðir og enn vaknar sú spurning hvort ekki væri rétt að velta upp hámarkssetningu á allar tegundirnar. Það sem gerist og getur gerst og við þekkjum frá kerfinu í gamla daga er að ef einhverjar tegundir voru þannig að hægt var að sækja í þær umfram aðrar bjó það til aukna sókn í þær tegundir. Menn bjuggu kannski til rétt sem annars hefði ekki verið og því hljótum við að þurfa að velta fyrir okkur hvort ekki sé rétt að allar tegundir sem úthlutað er krókaaflamarki í á grundvelli þeirrar hlutdeildar sem útgerðarmennirnir hafa falli undir sama kerfi og að á það komi hámarksprósenta.

Ég sagði áðan að hæstv. ráðherra hengdi fleira á þessa ferð. Þegar farið er að telja saman allar breytingar sem gerðar eru á lögum um stjórn fiskveiða er kannski skiljanlegt að menn reyni að nota ferðina og breyta nokkrum atriðum frekar en að taka eitt atriði í einu því að þá yrðu þessar breytingar enn fleiri en nú er. Þau þrjú atriði sem á frumvarpið eru hengd núna eru í fyrsta lagi 1. gr. þar sem lýst er yfir útför sóknardagakerfisins. Fyrir þá tvo báta sem hafa verið í því kerfi og eru í því á þessu ári dettur þann 31. ágúst á þessu ári sú heimild niður og þá er ekkert lengur til sem heitir sóknardagakerfi. Ég get alveg játað það fyrir mig að ég sé eftir því kerfi, ég sé eftir því kerfi í smábátunum vegna þess að ég taldi að það gæti hentað mjög vel í þeirri útgerð sem smábátarnir eru í. (GAK: … í byggðunum.)

Þetta var eitt af því sem hengt var á. Annað er ákvæðið um heimild til að gera þjónustusamninga um rafrænar tilkynningar um flutning aflamarks milli fiskiskipa og meira að segja kveður á um það í lögunum að greiða skuli 12 þús. kr. á ári fyrir slíkan samning. Þegar maður les í gegnum greinina segir að ráðherra sé heimilt að setja nánari reglur um skilyrði fyrir gerð þjónustusamninga og víkja frá ákvæðum 1.–3. mgr. að því leyti sem þau lúta að framkvæmd flutnings aflamarks og greiðslu gjalds vegna hans. Mér sýnist að með þessu orðalagi í greininni sé hæstv. ráðherra í raun heimilt að víkja frá nánast hverju sem er í 1.–3. mgr. Að því leyti sem þau lúta að framkvæmd flutnings aflamarks, hlýtur að fela í sér að allt það sem lýtur að flutningi aflamarks, hvort sem um það er að ræða að upplýsingar um verð skuli vera fyrir hendi þegar þetta fer á milli óskyldra aðila o.s.frv. Gott væri að fá að vita hjá hæstv. ráðherra hvort sá skilningur minn sé réttur að í raun heimili þessi lagatexti í 3. gr. ráðherra að ákveða upp á nýtt hvaða upplýsingar þurfa að fylgja í þessum rafrænu skráningum á flutningi aflamarks milli skipa í eigu sömu útgerðar eða milli skipa útgerða sem ekki eru í sömu eigu — hvort hann geti í raun ákveðið upp á nýtt að víkja talsvert frá lagatextanum og hvort það sé þá ekki nær að fara beint í lagatextann og breyta þá þeim atriðum sem menn eru að velta fyrir sér að breyta.

Það er annað í þessu sem maður hlýtur að velta fyrir sér. Samkvæmt lögunum í dag greiða útgerðarmenn 2 þús. kr. fyrir hverja tilkynningu eða færslu á aflamarki. Það kemur fram í mati fjármálaráðuneytisins á áhrifum þess á ríkissjóð að nú verði eingöngu gerður þjónustusamningur sem greiddar eru fyrir 12 þús. kr. einu sinni á ári, að ætla megi, í ljósi þeirra viðskipta sem fram hafa farið á undanförnum árum, að tekjur Fiskistofu komi til með að dragast saman út af þeim breytingum. Það segir reyndar að ætla megi að kostnaður Fiskistofu verði eitthvað minni út af því að þeir þurfi ekki að sinna þessu. Ég verð að segja alveg eins og er að ég á erfitt með að trúa því að umfang eða kostnaður hjá fiskilöggunni minnki þó að þetta sé gert með þessum hætti. Ég segi það einfaldlega vegna þess að ég hef ekki séð þá þróun eða tilhneigingu hjá opinberum stofnunum, jafnvel þótt breytingar séu gerðar á formi tilkynninga eða eitthvað slíkt, að það dragi eitthvað úr stjórnunar- eða rekstrarkostnaði þeirra stofnana. Ég held að með þessu sé verið að horfa á að greiðslur til Fiskistofu vegna tilkynninga um flutning á aflamarki muni einfaldlega lækka. Ég yrði ekkert hissa þótt kostnaður héldist sá sami og verið hefur.

Ég tek undir með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að við hljótum að þurfa að skilgreina mjög nákvæmlega hvaða upplýsingar þurfa að koma fram í þessum rafrænu færslum. Við hljótum að þurfa að tryggja að lagaákvæði, sem eru í lögunum um stjórn fiskveiða, segi að þegar um sé að ræða flutning á milli óskyldra útgerða verði að fylgja verð. Í raun og veru ætti líka að fylgja verð á þessum flutningi þegar verið er að flytja á milli skipa í eigu sömu útgerðar því að þetta eru upplýsingar sem Verðlagsstofa skiptaverðs notar líka þegar hún veltir fyrir sér fiskverði og hvort verið sé að láta sjómenn taka þátt í kvótaleigu eða kvótakaupum. Þegar svona kerfi er tekið upp hljótum við að reyna að tryggja það með sem öruggustum hætti að allar þær upplýsingar sem þurfa að fylgja svona færslum komi með í rafrænu færslunum en verði ekki eftir.

Það er svo einfalt og auðvelt þegar verið er að setja kerfið upp að setja það upp með þeim hætti að það safni þessum gögnum þannig að hægt sé að komast að þeim á mjög einfaldan hátt. Það á ekki að setja inn einhverjar takmarkaðar upplýsingar fylgjandi þessu þannig að menn þurfi einhvern tíma síðar meir að fara að gramsa til að reyna að tengja saman magn færslu og verð.

Frú forseti. Tími minn er nánast á enda þannig að ég kemst ekki í bráðabirgðaákvæðið um rækjukvótann, a.m.k. ekki í þessari ræðu minni. Ég held að full ástæða sé til að velta aðeins fyrir sér hvað þar er á ferðinni og ræða aðeins betur við hæstv. ráðherra.