132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[17:31]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ákvörðunin um að leggja niður sóknardagakerfið var tekin af hv. þingmanni og það var gert árið 2004. Mér finnst eins og hv. þingmaður sé að þvæla málið og horfist ekki í augu við eigin verk og mér finnst það miður. Hann tók ákvörðun um að afleggja sóknardagakerfið, sem hefur komið byggðum á Vestfjörðum mjög illa. Hann gerði það ekki einn, hann gerði það í félagsskap með hæstv. sjávarútvegsráðherra og með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni. Ef þeir hefðu staðið í lappirnar hefðu þessar breytingar ekki orðið. Það eru staðreyndir málsins og það er sárt fyrir hv. þingmenn að horfast í augu við að þeirra verk hafi komið byggðunum illa. En þeir áttu að vita það vegna þess að þeir voru upplýstir um það hér í þessum sal. Að halda því fram núna að þróunin hefði hvort eð er verið í þessa átt er alrangt. Það vita þeir sem fylgjast með sjávarútvegi í dag að þeir sem ætla að hefja útgerð á lítilli trillu þurfa að reiða fram 150 millj. kr. Að halda því fram að kerfið hafi verið komið í þá átt er alrangt hjá hv. þingmanni.

Í öðru lagi hefur þetta skert samkeppnisstöðu byggðanna fyrir vestan vegna þess að sóknardagabátarnir sóttu oft í minni fisk en nú hefur aflinn og sóknin verið að færast til þeirra staða þar sem von er á stærri fiski. Þetta vissi hv. þingmaður og það er ömurlegt að verða vitni að því að menn reyni að þvæla málin. Það er bara einfaldlega miklu betra og heiðarlegra fyrir þingmanninn að koma upp í ræðustól, frú forseti, og viðurkenna það og segja að hann sé stoltur af verkum sínum eða þá að hann sjái eftir þeim. Mér finnst að hv. þingmaður eigi að sjá eftir þessu vegna þess að þetta hefur reynst byggðunum afar illa.