132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[17:33]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson getur kynnt sér á hvaða verði dagarnir voru þegar löggjöfin var sett árið 2004 og á hvaða verði menn seldu veiðileyfi í sóknardagakerfinu. Það voru engar smáfjárhæðir þar á ferðinni og þær fóru verulega hækkandi þannig að kostnaðurinn við aðgang inn í kerfið var orðinn gríðarlega hár, líka inni í sóknardagakerfinu, og fór hækkandi. Það varð ekki nein afturför í þeim skilningi. (SigurjÞ: En sérðu eftir þessu?)

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er dálítið ókyrr. (SigurjÞ: Nei, nei, ég er það ekki.) Ég held að þingmaður Frjálslynda flokksins sé svona órólegur vegna þess að hann missti glæpinn. Við það að breyta þessu kerfi yfir í eitt samræmt veiðistjórnarkerfi missti flokkurinn fótanna af því að hann hefur gert út á sóknardagahugmyndina, sem út af fyrir sig er ágæt og margir aðhylltust a.m.k. framan af. Ég held að Frjálslyndi flokkurinn sé í þeim sporum að hann viti eiginlega ekki alveg við hvað sérstaða hans á að miðast í íslenskum stjórnmálum.

Ég fór yfir það, virðulegi forseti, að ég teldi að við hefðum ekki lokið því verkefni að semja fullnægjandi löggjöf um stjórn fiskveiða. Ég rakti það að hvaða leyti ég teldi rétt að vinna að breytingum á löggjöfinni. Hins vegar hefur hv. þingmaður ekki getað sýnt fram á með skýrum hætti hvað Frjálslyndi flokkurinn vill í stjórn fiskveiða. Það er dálítið þokukennt, virðulegi forseti.