132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[19:02]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson vitnaði hér í Bæjarins besta og samdrátt á Vestfjörðum yfir sumartímann. Ég tel ekki eðlilegt að bera saman árin 2004 og 2005. Árið 2004 voru sóknardagabátar, þá var heimilt að veiða frá 1. apríl til 31. október. Núna fá menn að veiða allt árið. Við vitum af fréttum síðustu daga að menn eru að mokveiða. Það er hærra verð á þorski í febrúar og mars. Við erum búin að fá fréttir af Grímseyingum sem eru að mokveiða þorsk þannig að þetta er ekki sambærilegt ár. Það er sambærilegt að bera saman 2005 og 2006. Það er ekki sambærilegt að bera saman þessi tvö kerfi þar sem í öðru má bara vera að veiðum frá 1. apríl til 31. október. Þarna held ég að hv. þingmaður sé að bera saman epli og appelsínur.

Ég þurfti að hafa samband við tvo trillukarla í dag og ætlaði að hitta annan í Þorlákshöfn. Hann var farinn að veiða af því að hann er í krókaaflamarkskerfinu. Bátur hans væri bundinn í sóknardagakerfinu. Hann mætti ekki byrja að veiða fyrr en 1. apríl. Það er því ekki eðlilegt að bera saman þessi tvö ár.