132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[19:05]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson svaraði mér ekki hvort það væri raunhæft að bera saman þessi kerfi, annars vegar sóknardagakerfið og hins vegar krókaaflamarkskerfið þar sem menn eru að veiða á öðrum tíma. Eins vil ég spyrja hv. þingmann — hann hefur nú hreykt sér af því að vera í miklu og góðu sambandi við smábátasjómenn — hvort hann hafi rætt við þá um hvort breyting hafi orðið á rekstrarumhverfi smábáta við að fara úr sóknardagakerfinu yfir í krókaaflamark. Ég hef rætt mikið við þessa aðila, fengið símhringingar og tölvupóst, og það er almenn ánægja með breytinguna. Við vissum það líka í sjávarútvegsnefnd þegar gerð var skoðanakönnun að menn vildu fara í þessa breytingar. Þeir töldu þetta vera miklu betra rekstrarumhverfi.