132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[19:06]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður minntist hér síðast á skoðanakönnun sem hefði verið lögð fram í sjávarútvegsnefnd á sínum tíma. Það er skoðanakönnun sem hefði ekki haldið vatni hjá fræðimönnum sem jafnvel kunna mjög lítið fyrir sér í því hvernig framkvæma á skoðanakannanir. Hún var vægast sagt vafasöm, sú skoðanakönnun. Hafi hv. þingmaður ekki séð blekkinguna sem fór fram þá er honum vart viðbjargandi og alvarlegt mál að hann skuli enn þá halda embætti sínu sem formaður sjávarútvegsnefndar fyrst hann lét blekkjast af jafnauðvirðilegum látalátum eins og borin voru á borð nefndarinnar þá vordaga.

Það er náttúrlega alveg rétt að það er erfitt að bera saman sóknardagakerfi og kvótakerfi þegar kemur að aflabrögðum. Hitt veit ég þó, og það er að sóknardagakerfið er á margan hátt miklu betra, til að mynda fyrir byggðirnar. Það er líka betra vegna þess að í því er hvorki brottkast né kvótasvindl. Það er nokkuð stór breyta, hef ég grun um, í þessum efnum. Kvótakerfið er þannig að hægt er að leigja frá sér aflaheimildirnar, veiða út á þær annars staðar, þær ganga kaupum og sölum. En sóknardagakerfið er þó þannig að það hefur í sér innbyggðan hvata til að gera út frá litlu þorpunum sem einmitt byggðust upp vegna nálægðar sinnar við fiskimiðin. Það tel ég mjög stóran kost.

Sóknardagakerfið hefur líka mjög marga aðra kosti sem ég hef ekki tíma til að fara nánar í hér en ég vil þó nefna að það hefur gefist mjög vel hjá frændum okkar, Færeyingum, og ég hygg að það mundi gefast mjög vel hjá okkur Íslendingum líka. Ég er alveg sannfærður um að sóknardagakerfið mun verða tekið upp í veiðum strandveiðiflotans við Ísland í framtíðinni. Héðan í frá er það bara spurning um tíma hvenær kvótakerfið brotnar saman og við tökum upp sóknarmarkskerfið hér við land.