132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[19:08]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Ég mun hér fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38 15. maí 1990, með síðari breytingum.

Í fyrsta lagi erum við að fella niður 6. gr. sem byggir á því að dagakerfi sóknardagabáta verður lagt niður. Aðeins tveir bátar eru enn starfandi í því kerfi en munu færast yfir í krókaaflamarkskerfið í lok þessa fiskveiðiárs. Það var mikil og skynsamleg ákvörðun að leggja af sóknardagakerfið og færa það yfir í krókaaflamark. Það var gert í sátt við þorra þeirra aðila er starfa í greininni. Það var tekist á um þetta mál á Alþingi en þegar kom að atkvæðagreiðslu um það voru ekki nema fjórir þingmenn sem greiddu atkvæði á móti þessum breytingum. (Gripið fram í.)

Þetta mál hefur töluvert verið rætt í dag. Ef við rifjum það aðeins upp komu mjög margir aðilar á fund sjávarútvegsnefndar og þeir voru sammála því að það þyrfti að loka þessu kerfi. Það má nefna fulltrúa Sjómannasambands Íslands, Vélstjórafélags Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og félags áhugahóps dagabátaeigenda. Þeir voru einnig sammála þessu. Þeir höfðu gert skoðanakönnun sem hefur verið rædd fyrr á þessum fundi og mér fannst hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson lýsa ákveðnu vantrausti á þá aðila sem tóku þátt í þeirri skoðanakönnun. Mjög stór hluti þeirra aðila er í þessu kerfi. Það var athyglisvert hve margir vildu aflamark, það voru fáir sem vildu vera í sóknardagakerfinu og röksemdirnar sem fylgdu voru þær að þetta væri rekstrarhæf eining út frá úthlutun aflamarks. Hvaða rök liggja að baki og hverjir voru kostir þess að fara í aflamark? Það er meira atvinnuöryggi. Við vitum líka að lausafjárstaða margra sóknardagabáta var erfið. Það var erfitt að selja sóknardagabáta. Bankakerfið var töluvert erfiðara að eiga við varðandi kaup á sóknardagabátum en bátum með aflamark. Þetta er margsannað og aðilar sem komu á fund sjávarútvegsnefndar sögðu okkur frá aðila sem fékk fjögur tilboð í bátinn sinn með fyrirvara um fjármögnun hjá bankanum. Þeim var öllum hafnað.

Í sóknardagakerfinu, eins og fram hefur komið, máttu dagabátar einungis róa frá 1. apríl til 31. október. Með því að fara í krókaaflamark geta þessir aðilar sjálfir ákveðið hvenær þeir róa og hvert þeir sækja fisk í sjó. Með því að stjórna sjósókn sinni sjálfir geta þeir valið stærri og betri fisk með því að veiða á öðrum árstíma og fengið þannig betra verð. Þetta var það sem ég var að ræða áðan, að menn veiða á öðrum tíma og það er minni veiði yfir sumartímann. Þetta er hluti af þeim skýringum sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson ræddi um áðan við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson í andsvari.

Aðilar sem heimsóttu sjávarútvegsnefnd á sínum tíma töldu meira öryggi í því að vera með varanlegan afla, 45 tonn, en að veiða 70 tonn eitt árið og vera í óvissu annað árið. Það eru miklar breytingar sem fylgja þessu. Við vitum það. Minni afla er landað á sumrin. Afli dreifist jafnar yfir árið og menn sækja á öðrum tíma og reyna að ná í stærri og verðmeiri fisk. Það er mjög eðlileg þróun að bátum fækki í þessu kerfi. Aflaheimildar verða sameinaðar, fleiri heilsársstörf verða til og þá losnar líka um önnur störf. Einhverjir fara yfir á línu en það skapar fleiri störf en handfæraveiðar, en handfæraveiðar leggjast aldrei af. Þær eru mjög hagstæð og ódýr veiðieining. Möguleiki á nýliðun í aflamarkskerfi er meiri en í sóknardagakerfi að mati þeirra er starfa í greininni. Ástæðan er fyrst og fremst sú að hægt er að gera langtímaáætlun á rekstri aflamarksskips en sóknardagabátur nýtur ekki sama vægis í bankakerfinu eins og áður hefur komið fram.

Virðulegi forseti. Í þessu frumvarpi er jafnframt bætt við 1. mgr. 11. gr. laganna að hlutfall verði ekki hærra en 6% af þorski og 9% af ýsu miðað við heildarkrókaaflahlutdeild í hvorri tegund þar sem samanlögð krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila er takmörkuð. Jafnframt bætist við 2. mgr. 11. gr. klásúla um heildarverðmæti krókaaflahlutdeildar.

Það var og verður alltaf ágreiningur um þessar prósentur. Sumir vilja hafa þær lægri en aðrir hærri. Sumir vilja samræma þetta prósentum sem eru í dag í kerfinu. Við verðum samt sem áður að skerpa á því ef við ætlum að skilja enn betur á milli stóra kerfisins og krókaaflamarkskerfisins. Ég hef talið mikilvægt að stjórnvöld skilgreini það enn frekar og það gerir hæstv. sjávarútvegsráðherra með þessu frumvarpi.

Ég vil sérstaklega geta þess sem fram kemur í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins en þar stendur, með leyfi forseta:

„Samkvæmt gildandi ákvæði 1. mgr. 11. gr. a eru settar takmarkanir á samanlagða aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila í fimm helstu tegundum botnfisks, auk síldar, loðnu og úthafsrækju, og miðast hámarkið við 12% í þorski og 35% í karfa en 20% í öðrum tegundum. Þá segir í 2. mgr. 11. gr. a að samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa megi aldrei nema meira en 12% af heildarverðmæti aflahlutdeildar allra tegunda sem sæta ákvörðun um heildarafla. Fyrrgreind takmörkun tekur einnig til krókaaflahlutdeildar, sbr. 5. mgr. 7. gr., en hér er lagt til að auk þessa verði sett sérstakt hámark á samanlagða krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila. Er lagt til að hún verði 6% í þorski, 9% í ýsu og 6% af heildarverðmæti krókaaflahlutdeildar þeirra tegunda sem krókaaflahlutdeild er úthlutað í. Ljóst er að mikil sameining krókaaflahlutdeildar hefur orðið og ástæða þykir til þess að setja þær takmarkanir sem hér er lagt til þannig að krókaaflahlutdeildir dreifist á fleiri fyrirtæki og þar með sjávarbyggðir.“

Herra forseti. Ég fagna því sérstaklega að heimilt er að tilkynna um flutning aflamarks milli fiskiskipa í rafrænu formi. Gerður hefur verið þjónustusamningur við Fiskistofu og árgjald fyrir slíkan samning verður 12 þús. kr. fyrir hvert fiskveiðiár. Hér er um mikinn sparnað að ræða hjá fyrirtækjum. Í fyrstu er gert ráð fyrir að aðgangur veiti útgerðarmönnum aðeins heimild til að flytja aflamark á milli eigin báta, er það kerfi hefur þróast geti heimildirnar til flutnings náð til allra sem eru með þjónustusamning. Þetta er eðlilegt meðan þessi mál eru að þróast með því að gæta þarf öryggis við svo veigamiklar breytingar. Einnig er ákvæði til bráðabirgða þar sem tekið er á því að úthluta aflamarki í úthafsrækju á fiskveiðiárunum 2005/2006, 2006/2007 og 2007/2008, að það leiði ekki til að fiskiskip missi aflahlutdeild í úthafsrækju eða öðrum tegundum.

Við höfum rætt um vanda rækjuiðnaðarins hér á Alþingi og er þessi breyting eðlileg í framhaldi af því. Að undanförnu hafa veiðar og vinnsla úthafsrækju gengið illa. Ástand úthafsrækjustofnsins hefur verið lélegt og aðeins heimilt samkvæmt tillögu Hafrannsóknastofnunar að veiða 10 þús. lestir á yfirstandandi fiskveiðiári. Það hefur ekki tekist að veiða leyfilegan úthafsrækjuafla síðustu ár. Bæði hefur veiðin ekki verið sem skyldi og markaðsaðstæður ekki nógu góðar.

Herra forseti. Ég hef sagt það áður að þrátt fyrir lög um stjórn fiskveiða er ekkert það heilagt í þeim að ekki megi breyta eða taka tillit til aðstæðna hverju sinni og það er verið að gera varðandi rækjuveiðarnar. Ég fagna því sem hæstv. sjávarútvegsráðherra er að gera. Það er jafnframt verið að endurgreiða útgerðargjald vegna úthlutaðs aflamarks í úthafsrækju á fiskveiðiárunum 2005/2006. Veiðigjaldið samkvæmt V. kafla laganna vegna úthafsrækju fiskveiðiárin 2005/2006, 2006/2007 og 2007/2008 skal innheimt í lok hvers fiskveiðiárs miðað við landaðan úthafsrækjuafla fiskiskipa á því fiskveiðiári.

Hér er um tímabundnar lagabreytingar að ræða vegna þeirra erfiðleika sem upp hafa komið í veiðum og vinnslu úthafsrækju og ber að fagna því. Vonandi næst að rétta úr kútnum í veiðum og vinnslu á úthafsrækju en það er mjög mikilvægt fyrir sjávarbyggðir hér á landi þar sem rækjuveiðar og -vinnsla hefur verið nokkuð stór þáttur í atvinnulífinu. Hæstv. sjávarútvegsráðherra á hrós skilið fyrir þessar breytingar, bæði hvað varðar styrkingu og skerpingu á milli stóra og litla kerfisins, svo og að bregðast tímabundið við erfiðleikum sem hafa verið í rækjuveiðum og -vinnslu.