132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[19:17]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég er viss um að hv. formaður sjávarútvegsnefndar er sammála mér um að fiskveiðistjórn snýst fyrst og fremst um fiskvernd. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann út í þann þátt málsins hvað varðar það að nú eru menn að setja þessi höft á, að kvótinn safnist ekki saman á einstök fyrirtæki í of miklum mæli. Hv. þingmaður hefur mikinn skilning á því, það kemur fram í ræðunni hans.

En mig langar að spyrja hv. þingmann, herra forseti, hvort hann hafi ekki áhyggjur af þeirri þróun sem hefur orðið hvað varðar að kvótinn safnast saman einmitt á þá staði þar sem fiskurinn er hvað stærstur. Til dæmis á Suðurland, í Grindavík. Það kom fram í ágætri ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar þar sem hann rakti hvert aflatilfærslurnar hafa farið og það hefur einmitt verið á Suðurland. Það væri fróðlegt að fá það hjá hv. þingmanni hvort hann telji þetta æskilega þróun. Hvort menn hætti ekki einfaldlega að gera út frá þeim stöðum sem von er á minni fiski.