132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[19:26]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðjón Hjörleifsson fór um víðan völl í vörn sinni, varnarræðu sinni, til að verja þá ömurlegu aðgerð sem hann átti aðild að á vordögum 2004 þegar sóknardagatrillurnar voru settar í kvóta. Þar fannst mér hann halla frekar réttu máli. Hann talaði m.a. um að það að setja trillurnar í kvóta hefði, hvað á ég að segja, tryggt atvinnu, ef ég man rétt. Hvað getum við þá sagt um þá sem höfðu lífsviðurværi sitt af veiðum af sóknardagabátunum sem eru nú komnir á bálið og hafa verið sendir í glatkistuna? Hvað skyldum við segja um þá? Hvað skyldum við segja um fólkið í sjávarbyggðunum sem hefur orðið fyrir áfalli af þeim völdum og hefur núna misst lífsviðurværi sitt, til að mynda fólki sem lifði og hafði atvinnu af því yfir sumartímann að taka við afla af þessum bátum. Fólki sem vann í fiskvinnslunni. Getur það hreykt sér af því að þessi aðgerð hafi aukið atvinnuöryggi þess? Ég held ekki.

Hér var talað um að það væri orðið svo miklu betra hjá mönnum sem hefðu verið með sóknardagabáta núna að vinna í bankakerfinu. Já, skyldi það ekki vera betra þegar sumir þeirra hafa fengið kannski 40–50 milljónir greiddar fyrir kvótann sem þeir fengu úthlutað á sóknardagatrillurnar sínar. Ég held að það sé svolítið auðveldara fyrir þá menn að halda haus yfir vatni í bankakerfinu í dag.

Síðan er það annað. Þeir sem fengu kvóta og eiga kvóta enn þann dag í dag eiga auðvitað betra með að koma ár fyrir borð, ef svo má segja, í bankakerfinu. Vegna þess að bankarnir hafa gert þá reginskyssu í þessu kvótakerfi að þeir hafa verið að lána mönnum peninga út á óveiddan fiskinn í sjónum, sem er mjög varhugaverð aðgerð og háskaleg hagkerfinu. Bankarnir hafa verið allt of gírugir við að lána mönnum út á óveiddan fiskinn í sjónum. Hvað gerum við svo þegar fiskurinn finnst ekki? Hvað hefur orðið um veðin sem voru til að mynda í rækjukvótanum (Forseti hringir.) sem núna er ekki lengur til?