132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[19:29]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við mótmæltum því kröftuglega vorið 2004 þegar þessi lög voru sett. Við í Frjálslynda flokknum greiddum því frumvarpi ekki atkvæði þegar það var til afgreiðslu. Talandi um að afkoman sé svo góð. Já, er það? Skyldu menn vera alveg sammála því þegar þeir upplifa það núna ár eftir ár að þorskkvótinn er skorinn niður á milli ára? Skyldu þeir vera sammála því sem hafa verið að kaupa sér kvóta og upplifa einmitt þetta, að við erum ekki að ná neinum árangri í þessu kerfi. Og þarna liggur kannski hundurinn grafinn. Við erum ekki að ná neinum árangri. Það er ekki nóg með að við séum að hjakka í sömu hjólförunum heldur grafast hjólin dýpra og dýpra niður í drulluna. Það er það sem er að gerast. Ef við værum að auka þorskkvótann kannski um 20–30% á ári eins og við hefðum kannski átt að vera að gera, þá væri málið allt öðruvísi. En málið er að menn eru alltaf að tapa kvóta vegna þess að við erum ekki að ná árangri. Er þá ekki kominn tími til að athuga hvort ekki sé ráð að reyna að finna upp á að gera eitthvað nýtt?