132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[19:32]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Eftir að hafa hlýtt á umræðuna, sérstaklega ræðu og andsvör hv. formanns sjávarútvegsnefndar, held ég að ekki veiti af því að menn tali um hvers vegna við stýrum fiskveiðum. Ég stóð í þeirri meiningu að með því ætti að vernda fiskinn í sjónum. Stundum hefur verið sagt að menn ætli að byggja upp fiskstofnana. En þegar maður heyrir málflutning hv. formanns sjávarútvegsnefndar er allt annað uppi á teningnum. Þá snýst þetta um eitthvað allt annað, að fyrirtæki séu í tímabundnum erfiðleikum. Málið snýst þá alls ekki um hagsmuni heildarinnar, langt í frá. Mér finnst átakanlegt að hlýða á þetta.

Þegar hv. þingmaður er spurður um þetta, herra forseti, þá segist hann hafa rætt við menn úti í bæ. Þeir séu ánægðari núna, sem hann talar við, en þeir voru áður. Hvers konar rök eru þetta í málinu? Mér finnast þau veigalítil. Ég held að allir sanngjarnir menn hljóti að vera mér sammála, nema þá kannski innvígðir og innmúraðir kvótasinnar. Menn hljóta að sjá að þetta er bara vitleysisrugl. Hann talar við einhvern í síma og það eru rökstuðningur fyrir frumvarpi sem heldur ekki vatni.

Hvers vegna stýrum við fiskveiðum? Það er til þess að byggja upp fiskstofna og ná fram hagkvæmri nýtingu. Ekki er að sjá að okkur hafi gengið mjög vel með það. Nei, alls ekki. Við getum skoðað þorskinn. Við veiðum helmingi minna af honum en áður en við fórum í þessa vitleysu. Það hefur sett sjávarbyggðirnar í mjög erfiða stöðu og verður talsvert mál, þótt við breytum kerfinu, fyrir þær að ná vopnum sínum á ný. En ég er sannfærður um að það er hægt og lít bjartsýnn til framtíðar. Ég tel ekki, eins og hv. formaður sjávarútvegsnefndar, að það sé jákvætt að flytja allan kvóta af Norðurlandi, þar sem fiskurinn er smærri, á landið sunnanvert. Ég gat ekki heyrt betur en að hann fullyrti það. Mér finnst það alvarlegt ef það er boðskapur Sjálfstæðisflokksins til okkar Norðlendinga að þetta sé jákvætt. Það er bara alls ekki svo.

Kerfið er ekki árangursríkt. Ég er á því að stýra eigi fiskveiðum svæðisbundið og með sókn. Þar sem slík stýring hefur verið á veiðum hefur náðst árangur, þ.e. í Færeyjum. Við sjáum að það er ekki bara að upp komi efasemdaraddir á Íslandi um stýringu botnfisksveiða með kvóta. Upp hafa komið efasemdir víðar. Um helgina bárust fréttir af þingmanni skoska íhaldsflokksins á Evrópusambandsþinginu, Struan Stevenson. Hann efaðist þar um fiskveiðistjórn Evrópusambandsins. Hvað gerðist? Sérfræðingar frá Hafró hlupu til í útvarpsfréttir í dag til að kasta rýrð á þá skoðun sem skoskur stjórnmálamaður hélt fram á heimasíðu. Til hvers? Til hvers eru þeir að því? Vegna þess að þeir óttast að menn horfi á málið með gagnrýnum augum og skoði íslensku fiskveiðistjórnina. Hún er götótt.

Eigum við að ræða um fiskveiðistjórnina út frá hagrænum þáttum? Á hv. formanni sjávarútvegsnefndar, Guðjóni Hjörleifssyni, var að heyra að svo væri, bráðabirgðaákvæðið kæmi til vegna þess að rækjuiðnaðurinn gengi illa. Ég hef samúð með rækjuiðnaðinum en er samt ekki viss um að þetta sé leiðin. Alls ekki. Það er langt í frá. Nær væri að líta t.d. á rafmagnsverðið og margt fleira.

Hið sorglega við þessa breytingu snýr að útför sóknardagakerfisins. Að henni stóðu þingmenn Vestfjarða. Við í Frjálslynda flokknum höfum bent á að Vestfirðingar mundu fara illa út úr þeirri breytingu, sem raunin varð. Að vísu reynir hv. þm. Guðjón Hjörleifsson að þvæla því máli. Ég held þó að allir Vestfirðingar, ekki síst þeir sem búa á Tálknafirði, hljóti að vera mér sammála. Enda segir einn þingmaður Vestfjarða, sem talar út og suður þegar talað er um fiskveiðimál, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, að það megi efast um alla þætti fiskveiðistjórnarinnar. Það segir hann í viðtali á vef Bæjarins besta. Ég er honum sammála. En hann gerir ekkert nema að herða hnútinn, herða á vitleysunni í því kerfi. Það væri fróðlegt að fá svör frá hæstv. ráðherra Einari K. Guðfinnssyni um hvort hann er sammála því að það sé jákvætt að aflaheimildir fari suður af norðanverðu landinu. Er hann sammála? Eru þeir alveg einhuga um þetta? Það er ótrúlegt að hlýða á mál þeirra.

Við höfðum varað áðurnefnda þingmenn við. Þeir höfðu auk þess lofað fólkinu á Vestfjörðum og víðar að halda í sóknardagakerfið. Þeir gerðu það m.a. á fundi á Ísafirði undir yfirskriftinni „Orð skulu standa“. Stóra fundinum þar. En þeir sviku það og hafa auðvitað ævarandi skömm fyrir. Það er átakanlegt að hlýða á hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson tala um að þetta sé einhver þróun sem hafi ekki verið umflúin. Hann segir að þetta hafi gerst mörgum árum fyrr. Það er bara ekki rétt. Það er sérstaklega skrýtið vegna þess að stundum talar sá maður eins og samviskan sjálf, líkt og hann einn hafi samvisku í Framsóknarflokknum, t.d. um Íraksstríðið. Hann er á móti því. Hann var á móti fjölmiðlalögunum. En hann gat ekki staðið með Vestfirðingum, herra forseti. Hann gat ekki haldið orð sín þegar það skipti Vestfirðinga máli.

Sama má segja um hæstv. sjávarútvegsráðherra. Hann hefur alltaf lofað hinu og þessu fyrir kosningar eins og kollegi hans hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Ég man ekki betur en að hæstv. ráðherra hafi skrifað á heimasíðu sína að hann hefði þá trú að Samfylkingin ætlaði að koma sóknardagakerfinu fyrir kattarnef. Svo gerði hann það sjálfur. Mér finnst það ekki stórmannlegt. Fyrir einhverjar kosningar lofaði hann að halda í þorskaflahámarkið. Hann gerði það ekki. Síðan kemur hann og gerir ekki neitt fyrir byggðirnar á Vestfjörðum, ekki nokkurn skapaðan hlut.

Hann lofaði atvinnuátaki á Bíldudal. Ég veit ekki betur en að þar sitji allt fast enn. Jú, hann hefur staðið að mjög einkennilegu verkefni. Ég er á því að það sýni í raun vitleysuna í nýtingarstefnunni þegar menn, í stað þess að veiða afræningja, fara að fóðra afræningja. Ég vísa þar til tilraunar sem gerð var í Arnarfirði. Í stað þess að leyfa fólkinu á Bíldudal að veiða fiskinn — hann er að éta upp rækjuna í Arnarfirðinum en fólkið má ekki veiða hann vegna þess hve heilagt kvótakerfið er, þótt það sé að rústa heimaplássum þessara ágætu þingmanna — var frekar gripið til þess ráðs að fóðra afræningjana. Hver var árangurinn? Hann var sorglegur vegna þess að rækjan hvarf, þrátt fyrir þessa einkennilegu tilraun.

Í umræðunum í dag hefur einnig komið fram að það að afleggja sóknardagakerfið hafi verið liður í að ráðast á Frjálslynda flokkinn. Ég verð að segja að mér finnst það vera stórtíðindi. Sérstaklega að viðurkenna þá gjörð á sama tíma og fjallað er á hinu háa Alþingi um að stofna greiningardeild til að komast fyrir landráð. Ég spyr: Hvað gengur mönnum til með því að taka af kerfi sem hefur skilað árangri og skilað þorpum landsins ávinningi, jafnvel þar sem hv. þingmenn búa, bara til að ráðast á einn flokk? Þarna ráðast menn á heildarhagsmuni þjóðarinnar. Ég tel að þetta ætti jafnvel að vera fyrsta málið sem hæstv. dómsmálaráðherra ætti að skoða, hans eigin verk. Hann hefur nánast viðurkennt það á heimasíðu sinni. Það gæti verið verðugt verkefni fyrir greiningardeildina að skoða hans eigin verk hvað þetta varðar. Fyrir tækifærið til að ráðast á minnsta flokkinn á Alþingi er jafnvel fórnað heildarhagsmunum þjóðarinnar. Það er með ólíkindum.

Ég er nú ekki viss um að þeim verði kápan úr því klæðinu. Allt sem við í Frjálslynda flokknum höfum sagt um sjávarútvegsmál hefur því miður átt við rök að styðjast. Ég segi því miður, vegna þess að við höfum sagt: Trúið ekki þessum flokkum þótt þeir lofi ykkur því að einhver bót verði gerð kerfinu eftir kosningar. Þeir munu miklu frekar herða á vitleysunni. Það hefur gerst. Við skulum líta á heildarhagsmunina. Það er minni þorskafli og nánast engin úthafsrækja. Kvótakerfið er svo heilagt að þótt ekki náist að veiða úthafsrækjuna má ekki hnika neinu. Þeir sem hafa aflaheimildir núna mega ekki losa tökin á aflaheimildunum. Hvers vegna ekki að hleypa nýjum aðilum að til að þeir geti þá náð í þennan afla? Það yrði þjóðinni í hag. Ég fæ því miður engin svör við því.

Ég vil enn og aftur minna á að miklar efasemdaraddir hafa heyrst, m.a. í Skotlandi og Norður Írlandi, um að stýra botnfisksveiðum með kvóta. Ég verð að segja að mér finnst miður að hæstv. sjávarútvegsráðherra vilji ekki skoða aðrar leiðir þegar hann sér að við erum komin út í horn með stefnu okkar.

Við bentum á að þetta mundi leiða til fækkunar og að þetta yrði til samþjöppunar, fækkunar skipa og stærri báta. Allt hefur þetta orðið raunin. Ég er á því að ábyrgð þeirra manna sem hafa stýrt þessu ferli sé mikil. Þegar menn tala um að þetta sé einhver þróun þá eru það hrein öfugmæli. Þróun er orð sem felur það í sér að menn stefni fram á við en þegar menn fara aftur á bak á að nota orðið afturför. Það er mjög sorglegt að heyra hv. formann sjávarútvegsnefndar segja að nýliðun sé jafnvel orðin auðveldari í kerfinu núna þegar þessi kvóti á aflabáta er kominn. Hefur sá ágæti maður enga jarðtengingu? Að stofna útgerð sem hefur 13 millj. kr. tekjur, þ.e. 100 tonna aflaheimild, kostar 140–150 millj. samkvæmt prísnum í dag. Það má reikna það út og hafa alla stærðir hvað hagstæðastar að tapið á slíkri útgerð er 8 millj. kr. á hverju ári. Þá á eftir að borga aflaheimildirnar. Þetta er með ólíkindum. Svo eru menn að tala um þessi stóru og sterku fyrirtæki. Því miður er raunin sú að þau eru flúin út af hlutabréfamarkaðnum. Ef ég man rétt eru einungis tvö eftir á hlutabréfamarkaðnum. Afkoman er nú ekkert mjög glæsileg. Skuldirnar hrannast upp. Mig minnir að það stærra skuldi u.þ.b. 20 þús. milljarða. Helsti hagnaður fyrirtækisins, ef marka má fréttir Morgunblaðsins, sem var gífurlegur á síðasta ári — mig minnir að hann hafi verið um milljarður — var gengishagnaður. Það var vegna þess að gengið hækkaði svo mikið sem leiddi af sér að þeir fengu náttúrlega minna fyrir afurðirnar. En það hafði líka jákvæðar afleiðingar fyrir þetta ágæta fyrirtæki að skuldirnar lækkuðu í íslenskum krónum, sem er náttúrlega jákvætt líka fyrir skuldugt fyrirtæki. Þarna myndaðist nánast milljarður í hagnað. Þessu var slegið upp í Morgunblaðinu sem spilar oft með þessu kerfi, að þetta sé allt í lagi. Það sé bara allt í lagi að þetta sé jákvætt, að þá lækkaði þetta um milljarð. Þannig að ef þetta fyrirtæki hefði skuldað ekki 20 milljarða heldur 40.000 millj. hefði Morgunblaðið getað slegið upp 2 milljarða kr. hagnaði af þessu fyrirtæki.

Þetta lýsir náttúrlega stöðu sjávarútvegsins. Skuldirnar eru alveg óskaplegar og það kemst enginn inn í greinina. Það er annað — hæstv. sjávarútvegsráðherra reynir nú að gleyma sér og grúfir sig niður í blað frammi á gangi, sem ég skil vel því að ég er því miður að segja sannleikann hér — það er ekki verið að mennta fólk í greininni. Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að leggja niður fiskvinnsluskóla og ég þráspyr hæstv. menntamálaráðherra sem svarar út og suður að þetta sé í einhverri skoðun og bla, bla, bla. Ef við spyrjum sjálfstæðismenn út í það hvers vegna verið sé að leggja niður t.d. útvarpsþátt sem fjallar um sjávarútvegsmál þá finnst þeim fáránlegt að spyrja um það. En hvers vegna leggja þeir niður útvarpsþáttinn? Það er vegna þess að þeir þola ekki umræðuna um sjávarútvegsmál. Þetta er bara orðið þeim erfitt og lýsir líka ákveðinni firringu hjá flokknum. Það má ekki ræða þessa hluti og helst bara að loka fyrir umræðuna. Það eru bara settar upp bara einhverjar ráðstefnur, t.d. í kringum 40 ára afmæli Hafró, og einhverjir græningjar fengnir sem aðalmenn, sem eru á móti fiskveiðum.

Við höfum gagnrýnt þetta í Frjálslynda flokknum. En við segjum líka við fólk að það geti verið bjart fram undan ef við losum okkur við kvótaflokkana. Við höfum heyrt og bara viðurkennt það hér, hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, að þetta snýst ekkert lengur um fiskvernd. Þetta snýst um afkomu einhverra fyrirtækja. Ég segi við fólkið í landinu: Þau eru skilaboðin. Þetta snýst ekkert um heildarhagsmuni. Hann hefur viðurkennt það hér, hv. formaður sjávarútvegsnefndar. Þetta snýst um einhver veð og afkomu í fyrirtækjum, einstökum fyrirtækjum, og alls ekki heildarhagsmuni. Við skulum skoða þessa hluti með gagnrýnum hætti og vinna okkur út úr þessu kerfi. Ég er alveg sannfærður um, eins og ég stend hér, að það er hægt, en það verður jafnframt ekki gert með þeim flokkum sem nú eru við stjórnvölinn og hafa bara hert á vitleysunni. Ég er á því að ungt fólk þurfi ekki eingöngu að líta á álver sem framtíðarvinnustað sinn heldur einnig sjávarútveginn. Ég er á því að sjávarútvegur geti tengst inn í aðrar tæknigreinar. Hann sé ekki bara lokuð grein eins og Sjálfstæðisflokkurinn vill hafa hann.

Ég segi það enn og aftur: Ef þjóðin ber gæfu, og sérstaklega landsbyggðin, til að hafna þessu kerfi og þessum kerfisflokkum verður umræðan um stöðu sjávarútvegsins miklu bjartari.