132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[20:15]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Umræðan um þetta mál hefur farið vítt og breitt. Einn hv. þingmaður Framsóknarflokksins hefur m.a. spurt mikið um stefnu Frjálslynda flokksins. Það hefur verið upplýst í umræðunni að hann muni fá stefnu okkar í pósti. Við erum einmitt að gefa út stefnuskrána í veigamiklu broti. Ég vonast til að það verði honum til góðs og að hann nái að sveigja Framsóknarflokkinn í einhverju máli. Það gengur reyndar ansi illa í flestum öðrum málum sem hann er ósammála flokknum um en þó er aldrei að vita. Að vísu verður við ramman reip að draga þar sem guðfaðir kvótakerfisins er formaður flokksins. Ef til vill, herra forseti, þarf að skipta um formann í þeim flokki til að hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, hv. þingmanni takist að sveigja stefnu flokksins í sjávarútvegsmálum.

Við höfum verið að ræða um smábátana og, sem skiptir verulega miklu máli, að menn hafi áhyggjur af því að aflaheimildirnar safnist á fárra hendur. Ég er sammála því að það beri að forðast. Ég hefði aftur á móti talið að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefði átt að gera ráð fyrir að aflaheimildirnar soguðust ekki á aðeins einn landshluta. Mér finnst vanta umræðu um líffræðina á bak við fiskveiðistjórnina.

En þetta með smábátana er annað mál. Á þeim starfa menn sem eru samningslausir. Að vísu kom fram hjá hv. þm. Guðjóni Hjörleifssyni að hann hefði hringt í menn. Helstu röksemdir hans fyrir því að þetta frumvarp væri gott voru að þeir sem hann ræddi við hefðu verið jákvæðir. Það er þó greinilegt að hann hefur ekki talað mikið við sjómenn. Þeir eru ósáttir við margt í fiskveiðistjórninni, sérstaklega smábátasjómenn. Þeir eru samningslausir líkt og mér skilst að blaðburðarbörn hafi verið lengi vel. Það er ólíðandi og til skammar fyrir stjórnvöld að hafa ekki tekið á því. Ég ræddi hér við hæstv. félagsmálaráðherra um þetta mál. Hann vísaði málinu að einhverju leyti, ef ég skildi hann rétt, á hæstv. sjávarútvegsráðherra. Það væri fróðlegt að heyra í umræðunni hvort honum finnist þetta ekki átakanleg staðreynd, að þeir sem sækja sjóinn á minnstu bátunum séu samnings- og nánast réttlausir. Við höfum séð slæm dæmi um þetta, m.a. í blöðum, um að mönnum hafi verið kastað úr skipsplássi að ástæðulausu og háð erfiða baráttu við að fá lífeyrissjóðsgreiðslur og sækja rétt sinn. Þetta er eitt af því sem þarf að taka á.

Eins finnst mér stundum dregin upp glansmynd af tekjum sjómanna. Sú mynd er óraunsæ og allir sem hafa komið nálægt sjávarútvegi vita að tekjur sjómanna hafa dregist saman á síðustu árum. Þetta er áhyggjuefni. Margir sjómenn hafa tjáð mér að þeir væru óánægðir með þessa nýju samninga og að þeir hafi orðið fyrir tekjusamdrætti. Ég tel að fiskveiðistjórnarkerfi eigi þátt í því. Við verðum að gæta að því að þótt dregnar hafi verið háar fjárhæðir út úr stórum og stöndugum útgerðum, t.d. 3.000 millj. kr. út úr einni útgerð norðan heiða eina helgina, eða hvað það var, þá kemur það á endanum niður á sjómönnum. Útgerðin verður skuldsett og alltaf fer meira og meira í að borga vexti. Þannig verður minna eftir hjá þeim sem vinna í greininni. Enda sjáum við að því miður er mjög lítil endurnýjun á fiskiskipastólnum, nema þá helst í allra minnstu bátunum. Þetta er eitt af því sem menn ættu að hafa áhyggjur af og ræða.

Menn ræða þannig um fiskveiðistjórnina að þeir fara að tala um potta og aflabrest, t.d. í Breiðafirði, sem ég geri ekki lítið úr. Síðan fara fram ráðstefnur um nýliðun og 40 ára afmæli Hafró. Þá koma upp æ meiri efasemdir um að stýra eigi fiskveiðum með þessum hætti. Það er að sjá að fiskifræðingar í Færeyjum hafi gagnrýnt kenningar Jóns Kristjánssonar um að ekki þurfi stóran hrygningarstofn til að nýliðun verði með ágætum. Það kemur m.a. fram, í síðustu viku í Morgunblaðinu, sem oft er mjög, vægast sagt, vilhallt kvótakerfinu. Mér finnst það stundum því marki brennt að segja ekki alla söguna. En þó birtist þar frétt sem segir að í Færeyjum sýni nýjar rannsóknir að nýliðun ráðist af fæðuframboði í sjónum og sjálfráni. Mest er um sjálfránið þegar mikið af horuðum þorski kemur upp að landinu, sem aftur ræðst af því að hve mikill fiskur, þorskur og ufsi er um fæðuna. Sem sagt, með öðrum orðum: Færeyskir fiskifræðingar taka núna undir með kenningum Jóns Kristjánssonar.

Jafnvel mjög nýlegar rannsóknir sýna að stór hrygningarstofn geti haft öfug áhrif á nýliðun. Mér finnst vert að ræða þetta, að þetta sé einnar messu virði. Í stað þess hef ég orðið var við að menn reyni jafnvel að útiloka slíka umræðu. En það er einmitt þörf á að fara yfir þetta. Eins og ég minntist á í fyrri ræðu minni hafa komið upp efasemdir í Skotlandi, sem ná alla leið til Evrópusambandsins, um nýtingarstefnu Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Þetta er eitt af því sem við þurfum að ræða og eins um hve mikið hefur þrengt að sjómönnum. Ræða þarf starfskjör þeirra. Þeir eru samningslausir og standa jafnvel verr en blaðburðarbörn gerðu fyrir nokkru. Mér skilst þó að a.m.k. annað blaðið hafi gengið frá sínum málum, stærsta dagblaðið. Þetta er ólíðandi.

Við ræðum hér annað veifið um starfsmannaleigur en mér finnst tími kominn til að ræða starfskjör sjómanna á minnstu bátunum af alvöru. Þetta er ekki léttvægt mál þar sem þeir geta vísað hvor á annan, hæstv. sjávarútvegsráðherra og félagsmálaráðherra. Við þurfum að taka á þessu máli. Ég vonast til að orð mín verði til að hreyfa a.m.k. við hæstv. sjávarútvegsráðherra. Það var að heyra á hæstv. félagsmálaráðherra að þetta væri ekki mjög mikið mál. Ég held að hann hafi þá talað af vankunnáttu, hafi ekki verið viss um raunverulega stöðu slíkra báta. Ég vonast til að þessi umræða verði til að skila okkur a.m.k. árangri að því leyti.