132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[20:38]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla aftur að vísa til 3. gr. laganna um stjórn fiskveiða þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Sjávarútvegsráðherra skal, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, ákveða með reglugerð þann heildarafla sem veiða má á ákveðnu tímabili eða vertíð úr þeim einstökum nytjastofnum við Ísland sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á.“

Ég skil þetta þannig að hæstv. sjávarútvegsráðherra geti ekki bara ákveðið það eftir sínu höfði hvort settur sé kvóti heldur þurfi að vera þörf á því. Þegar fyrir liggur að menn veiða ekki þá kvóta sem hafa verið settir út, kannski ár eftir ár, hlýtur hæstv. ráðherra að þurfa að velta því fyrir sér hvort ekki eigi að gefa veiðar frjálsar á viðkomandi tegund. Það hefur verið gert — þar má nefna steinbítinn til sögunnar — að taka tegund út úr kvóta ef ástæða hefur þótt til einmitt af þessum sökum sem ég er að nefna.

Síðan finnst mér hæstv. ráðherra þurfa að fara betur yfir það hvort þetta geti í raun og veru gengið upp miðað við röksemdir manna á sínum tíma fyrir því að leggja hömlur á atvinnufrelsi manna sem voru rökstuddar með því að fiskveiðum þyrfti að stjórna, að vernda þyrfti viðkomandi stofna. Ekki er veitt úr þeim stofni sem um er að ræða eins og lagt er til. Ekki eru veiddir kvótarnir sem hæstv. ráðherra ákveður. En hæstv. ráðherra vill opna leið til þess að viðkomandi aðilar geti haldið í kvótana áfram án þess að veiða allan þann tíma sem hér er lagt til að þetta ástand standi.