132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[20:40]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er það rétt hjá hv. þingmanni að hægt væri að taka rækjuna út úr kvóta alveg eins og við gerðum með steinbítinn á sínum tíma. Reyndar var gerð tilraun til þess fyrir ekki löngu síðan að taka steinbítinn út úr kvóta þó að það hafi nú ekki tekist á þeim tíma.

En ég spyr þá hv. þingmann: Hvernig vill hv. þingmaður standa að þessu máli? Vill hv. þingmaður í ljósi stöðunnar eins og hún nú er taka veiðiréttinn af þessum útgerðum sem hafa verið að veðsetja sig, hafa verið að kaupa veiðiréttinn kannski í ýmsum tilvikum? Þau sitja uppi með miklar fjárskuldbindingar og þurfa að standa undir þeim með einhverjum hætti. Er það þá skoðun hv. þingmanns að það sé sérstakt heillaráð núna þegar svona stendur á í rækjuútveginum að taka burt veiðiréttinn og bregða þannig fæti fyrir útgerðirnar?

Mér finnst þetta mjög undarleg afstaða hv. þingmanns en hann hlýtur að þurfa að svara fyrir hana. Hv. þingmaður segir að núverandi fyrirkomulag hamli því á einhvern hátt að menn geti hafið rækjuveiðar. Allir vita að þetta er ekki þannig. Rækjukvótinn fæst fyrir ekki neitt. Ef einhver vill veiða kvóta og landa hjá rækjuvinnslum hér á landi þá er ekki nokkurt vandamál að fá aflaheimildir til þess vegna þess að aflaheimildirnar eru sem leiguheimildir einskis virði um þessar mundir. Þess vegna finnst mér sá hluti röksemda hv. þingmanns engan veginn standast þegar grannt er skoðað, og ekki þarf einu sinni að skoða þetta grannt því þetta blasir við hverjum einasta manni bara þegar litið er á málið.

Hv. þingmaður verður að tala skýrt í þessum efnum. Hann segir núna að það eigi að taka þessar aflaheimildir af mönnum, að það eigi að taka burt þennan veiðirétt vegna þess að menn séu ekki að nýta hann og það standist þess vegna ekki stjórnarskrá að þeir fái að halda veiðiréttinum. Er það skoðun hv. þingmanns að það beri einfaldlega að gera þetta núna gagnvart rækjuútgerðunum sem standa veikast, sem eiga í mestum erfiðleikum, vegna þess að veiðirétturinn nýtist þeim ekki? Er þá sérstakt (Forseti hringir.) heillaráð að taka veiðiréttinn af þeim?