132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[20:44]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sérkennilegt ef hv. þingmanni finnst undarlegt að maður vilji breyta lögum þegar tilefni er til þess að lögum sé breytt. Ættum við þá þegar við samþykkjum einhvern tíma lög að lýsa því yfir að þeim lögum verði aldrei að eilífu breytt? Það var hv. þingmaður að segja hérna áðan. (Gripið fram í.) Ætti kannski að setja inn ákvæði til varanlegra bráðabirgða um að aldrei megi breyta lögunum um stjórn fiskveiða? Það var hv. þingmaður að segja.

Hv. þingmaður sagði að hægt væri að styðja við bakið á rækjuútgerðinni með ýmsum öðrum hætti. Ég þekki þá umræðu vel. Hv. þm. Kristján L. Möller segir hér fund eftir fund að það eigi að nota 9. gr. og útdeila sérstökum byggðakvótum. En hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur hins vegar allt aðra skoðun. Hann er þeirrar skoðunar að svona byggðakvótum eigi ekki að beita heldur nota frekar fjárhagslegar aðgerðir af hálfu hins opinbera.

Það sem hv. þingmaður er í raun að segja, en vill ekki segja úr ræðustóli af því að hann treystir því að ég geti sagt það fyrir hann, er að það eigi að koma með ríkisstyrki til rækjuútgerðarinnar í landinu og þá vitum við það alla vega. (Gripið fram í.)