132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[20:50]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði hvort ég væri sammála því að það væri jákvætt að allar aflaheimildir streymdu suður. Ég gat ekki merkt það af orðum hv. þm. Guðjóns Hjörleifssonar að hann hefði verið að tala um það. Þetta er útúrsnúningur að mínu mati á orðum hans. (Gripið fram í.) Það er hins vegar þannig, virðulegi forseti, að auðvitað skiptir miklu máli að aflaheimildirnar séu dreifðar um landið. Það er það sem við erum m.a. að reyna að gera með þessu frumvarpi. Við erum að reyna að tryggja dreifingu aflaheimildanna með þessum aðgerðum hérna.

Ég var borinn þungum sökum á sínum tíma þegar ég stóð að línuívilnuninni, sagt að það væri tilraun til að láta aflaheimildirnar streyma vestur á firði og norður um land. Það er það sem menn sögðu. Ég hef hins vegar sagt sem svo að ég haldi að það skipti mjög miklu máli fyrir sjávarútveg okkar og ekki síst fyrir smábátaútgerðina að aflaheimildirnar séu sem dreifðastar. Það er líka það sem við erum einfaldlega að reyna að gera með þessu frumvarpi. Við erum að reyna að festa í sessi þetta smábátakerfi af því að það virkar vel. Við erum að reyna að tryggja að aflaheimildirnar séu dreifðar. Við sjáum af ásókninni í þetta kerfi að það er áhugi á því að gera út innan þess vegna þess að það er öflugt og kröftugt og skapar fjölmörgu fólki vinnu um allt land.