132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[20:53]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gerði grein fyrir því efnislega áðan af hverju þetta ákvæði var ekki látið taka til fleiri tegunda. Fyrir mér vakir ekkert annað en það sem ég var að segja. Ég verð að biðja hv. þingmann einu sinni að trúa því sem maður er að reyna að segja. Fyrir mér vakir ekkert annað en að reyna að tryggja tiltekna dreifingu og þegar við horfum síðan á að dreifingin er miklu meiri í ufsa, karfa, löngu, keilu og steinbít, sem eru hinar tegundirnar í krókaaflamarkinu, töldum við ekki á þeim tímapunkti nauðsynlegt að setja þetta ákvæði inn. Ég hef hins vegar margsagt úr þessum ræðustóli að ég er alveg opinn fyrir því að þessi mál séu skoðuð. Mér finnst ekkert óeðlilegt við það, nema síður sé, mér fyndist skynsamlegt að sjávarútvegsnefndin færi yfir þetta mál. Hún hefur tækifæri til þess í viðræðum við m.a. hagsmunasamtökin og þá aðra aðila sem málið varðar.

Ég verð að mótmæla því, virðulegi forseti, að hv. þingmaður tali alltaf um braskara í þessu kerfi. Þegar við horfum á þetta og sjáum hvað hefur verið að gerast eru það ekki braskarar sem eru á bak við útgerðirnar. Ólarnir í Grímsey eru ekki braskarar. Fiskvinnslan Kambur á Flateyri er ekki braskari. Það eru ekki braskarar sem standa fyrir Útgerðarfélaginu Ósi í Bolungarvík, svo að ég taki þá stærstu sem eru í þessu kerfi. Er það það sem hv. þingmaður á við þegar hann talar um þetta kerfi, að þessir menn séu braskararnir, mennirnir sem hafa keypt aflaheimildir í stórum stíl til að styrkja sínar eigin útgerðir? Það er ekki þannig.

Auðvitað er hægt að finna einhverja menn sem eru að reyna að spila á þetta kerfi og gengur misjafnlega vel eða illa í því vegna þess að það er verið að breyta þessum hlutum eins og menn hafa verið að tala um. En við eigum að reyna að horfa á þetta sem alvöruútgerð. Þetta er alvöruatvinnugrein og langflestir í henni eru einfaldlega menn sem eru að reyna að koma sér fyrir í atvinnurekstri, standa vel að honum og stuðla að því að útgerð þeirra og fiskvinnsla sé öflug. Við eigum ekkert að gera neitt lítið úr því.