132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[20:56]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að það sé svo erfitt að trúa mér. Þá vil ég spyrja: Af hverju er hv. þingmaður að spyrja mig? Er það til þess að fá einhver svör sem hann veit fyrir fram að eru þá haugalygi?

Ég verð að segja að þetta gengur ekki alveg upp í mínum kolli og skal játa að ég er örugglega samt sem áður ekki jafnskarpur og hv. þingmaður. Það sem ég gerði einfaldlega var það að ég flutti efnisleg rök við þeirri spurningu sem hv. þingmaður beindi til mín. Ég flutti efnisleg rök og reyndi að útskýra hvers vegna staðið var að þessu frumvarpi með þeim hætti sem þarna var. Hvernig brást hv. þingmaður við? Jú, hann gerði það með því að reyna að klína á mig einhverjum annarlegum hvötum, að ég reyndi að taka þátt í einhverju braski, að því mér skildist, með einhverjum ótilgreindum mönnum sem væru að reyna að koma sér fyrir hingað og þangað. Hann kallaði þá braskara sem hefðu keypt sig inn í þetta kerfi. Mér er eiginlega alveg orða vant og veit ekki hvernig ég get svarað þeim spurningum sem fyrir mig eru lagðar þegar fyrir liggur að hv. þingmaður vill ekki einu sinni trúa svörum mínum.

Það er einfaldlega þannig að ég fór efnislega yfir málið, flutti ákveðin rök fyrir því og sagði af hverju það er þannig að við settum þetta ákvæði á svona en ekki einhvern veginn öðruvísi. (Forseti hringir.) Svo verður auðvitað hv. þingmaður að eiga við sig hvort hann vill eitthvað hlusta á svörin.