132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[14:15]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ráðherrann hefur farið öfugum megin fram úr í morgun eða hvað hrjáir hæstv. ráðherra, vegna þess að það var fátt rétt af því sem hún sagði í ræðustóli áðan. Þannig sagði hún að ég hefði talað um að samkeppnisrekstur ætti hugsanlega ekki að vera undanskilinn upplýsingaskyldunni, en í frumvarpinu segir alveg skýrt að undanskilja megi upplýsingar sem varða samkeppnisrekstur félagsins. Það er alveg skýrt í frumvarpinu að þennan þátt í rekstrinum má undanskilja. Það er hins vegar ekki bara stjórnar fyrirtækisins að ákvarða hvaða rekstur telst heyra undir samkeppnisrekstur og hver ekki, heldur er þarna hægt að leita til þriðja aðila ef menn eru ekki á eitt sáttir í þeim efnum.

Hins vegar varðandi það að setja eitthvað í hlutafélagalögin um aukinn meiri hluta. Það segir ekki í þessu frumvarpi. Það segir að heimilt sé að setja ákvæði í sérlög eða samþykktir fyrir opinbert hlutafélag þess efnis að aukinn meiri hluta þurfi á Alþingi. Það er ekki gert ráð fyrir að það sé sett inn í almenn hlutafélagalög, heldur í sérlög eða í samþykktir hlutafélaga. Þannig væri hægt að setja inn í þau sérlög sem hér liggja fyrir um Ríkisútvarpið að ekki megi selja Ríkisútvarpið nema til komi aukinn meiri hluti á Alþingi. Ég tel að sum fyrirtæki séu þess eðlis að það sé rétt, sanngjarnt og eðlilegt að aukinn meiri hluta þurfi í þinginu eða í sveitarstjórn til að samþykkja söluna. Það er ekkert ólýðræðislegt við það að taka sumar ákvarðanir með auknum meiri hluta. Það er alþekkt í öllum lýðræðissamfélögum og félögum ef menn vilja búa til sem breiðasta samstöðu að setja slík ákvæði, hvort sem er í lög eða samþykktir. (Forseti hringir.) Og lýðræðið, já, það tekur tíma, virðulegur ráðherra.