132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[14:18]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér fyrsta frumvarpið af sex sem öll lúta að hlutafélagaforminu. Fimm þeirra eru stjórnarfrumvörp, eitt frumvarpanna er frá Samfylkingunni.

Mig langar til að byrja á því að segja hve ágætt ég tel vera að frumvörpin skuli rædd saman. Mér finnst mjög mikilsvert, og legg á það áherslu, að þegar kemur til kasta þingnefndar sem fjalla á um þessi mál og gestir verða kallaðir fyrir viðkomandi nefnd verði sami háttur hafður á og öll frumvörpin verði tekin til afgreiðslu og umfjöllunar um leið. Þetta á við um önnur tengd mál og ég vil nefna í því sambandi t.d. frumvörp um Ríkisútvarpið. Þar liggja tvö frumvörp fyrir þinginu, eitt frá ríkisstjórninni og annað frá Vinstri hreyfingunni — grænu framboði. Auk þess eru þingsályktunartillögur frá Samfylkingunni og Frjálslynda flokknum og hv. þm. Pétri H. Blöndal, sem er með mál sem ég hygg að sé á dagskrá síðar í dag eða hefur verið á dagskrá þessa dagana en ekki komist í umræðu. Það er um þá stefnu sem mótuð hefur verið af Sambandi ungra Sjálfstæðismanna, og áréttuð á þingum Sjálfstæðisflokksins svo og af hálfu hv. þingmanna flokksins hér, um að selja Ríkisútvarpið. Ég tel mjög mikilvægt að þessi umræða og öll þessi þingmál séu undir um leið. Ég tel mjög mikilvægt að svo verði gert. Það er reyndar nokkuð sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur einnig talað fyrir í þingsal. Það væri fróðlegt að vita hvernig hann fylgir því eftir sem formaður í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins þegar þessi mál koma þar fyrir. Þetta er fyrsta atriðið sem ég vildi leggja áherslu á.

Annað er að um opinbera starfsemi og fyrirtæki á markaði er gildandi margbreytileg lagaumgjörð. Við erum þar með fyrirtæki, einkahlutafélög, sameignarfélög, byggðasamlög og sérhannað rekstrarform um margvíslega starfsemi, sem reyndar byggir á þessum lögum meira og minna, svo sem um Landsvirkjun, um Orkuveitu Reykjavíkur og Norðurorku og þannig mætti áfram telja. Við erum með mjög margbreytilega flóru.

Það er nokkuð síðan að menn brydduðu upp á því í þingsölum að heppilegt væri að smíða sérstök lög um hlutafélög í opinberri eign. Ég minni á frumkvæði Álfheiðar Ingadóttur, hv. varaþingmanns. Hún flutti um þetta þingmál á sínum tíma og eins og hefur komið fram liggja núna fyrir tvær leiðir hvað þetta snertir, annars vegar frá ríkisstjórninni og hins vegar frá Samfylkingunni, og ætla ég að víkja að þeim hér síðar.

Hæstv. viðskiptaráðherra sagði að með þessu litla frumvarpi, eins og hún nefndi það, væri verið að stíga mjög stórt skref fram á við. Þetta er eins og hvert annað grín í tvennum skilningi. Í fyrsta lagi er verið að stíga stórt skref aftur á bak þegar við höfum í huga við hvaða aðstæður og við hvaða rekstur á að nota þessi lög. Menn eru væntanlega að tala um að beita þeim á Ríkisútvarpið, sem til stendur að gera að hlutafélagi, menn eru væntanlega að tala um þau varðandi Matvælastofnun, sem einnig er á færibandi einkavæðingar hjá ríkisstjórninni, og væntanlega um Flugmálastjórn, sem einnig er komin inn á þetta sama vinnsluborð. Þegar við skoðum málin í þessu samhengi er verið að stíga aftur á bak í margvíslegu tilliti. Þannig er að um þá starfsemi sem ég vék hér að, Ríkisútvarpið, Matvælastofnun, sem byggir á fjölda stofnana sem eru við lýði, og Flugmálastjórn, gilda lög sem heita stjórnsýslulög, upplýsingalög, lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og fleiri lög mætti reyndar einnig tína til sögunnar.

Ef við víkjum aðeins að þessum lögum almennt þá er í upplýsingalögum kveðið á um mjög ríkan rétt samfélagsins, þjóðfélagsþegnanna til að fá upplýsingar um starfsemina. Í upplýsingalögum er kveðið á um þann rétt í 25 greinum með hvaða hætti þegnarnir eigi aðgang að upplýsingum. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega í saumana á því en hér er einnig vikið að kæruheimildum ef fólk telur opinberar stofnanir brjóta á sér í einhverjum skilningi. Í stjórnsýslulögum eru síðan ákvæði um hæfi þeirra sem fara með vald í þessari starfsemi. Þar eru mjög skýrar reglur varðandi jafnræði, þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Við úrlausn mála skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Óheimilt er að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum.“

Það er kveðið á um andmælarétt þar sem einstaklingar innan og utan stofnana eiga rétt á því að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun o.s.frv. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega í saumana á þessu eða útlista þetta nákvæmlega en í þessum tvennum lögum, upplýsingalögum og stjórnsýslulögum, er kveðið á um rétt starfsmanna og þegna samfélagsins. Að sjálfsögðu gildir það einnig um fjölmiðla landsins sem iðulega leita eftir upplýsingum innan úr hinu opinbera kerfi fyrir hönd þjóðfélagsþegnanna.

Síðast en ekki síst vil ég nefna lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna en þar er kveðið á um margvísleg réttindi sem ég tel mjög mikilvægt að standa vörð um. Eitt af því, sem reyndar hefur oftar en einu sinni borið á góma í sölum Alþingis, er réttur sem nefndur hefur verið andmælaréttur eða áminningarskylda stjórnenda, sem gildir ef til stendur að segja einstaklingi upp störfum. Hann á þá rétt á því að bæta ráð sitt, að leiðrétta hugsanlegan misskilning ef hann er fyrir hendi og er valdur að uppsögn einstaklingsins. Hann á rétt á öllu þessu áður en honum er endanlega vísað brott úr starfi. Ef það nú gerist sem er því miður tilhneiging, bæði í fyrirtækjum á markaði og innan opinbers reksturs einnig, að forstjóravald er að styrkjast þá tel ég mjög mikilvægt að kasta þessum rétti launamannsins ekki útbyrðis. Því að ella er hætt við því að forstjórar, sem eru ekki starfi sínu vaxnir, hafi ekki þor eða dug til að ræða beint við starfsmenn sem ekki axla starfslegar skyldur sínar og finna að því við þá og vara þá við. Þeir aðilar sem ekki eru þeim vanda vaxnir beita forstjóravaldinu og segja einstaklingum upp án skýringa. Það sanna dæmin. Ég skil ekki í hverju sú framför liggur að nema þennan sjálfsagða rétt launamannsins á brott úr lögum. Þetta er eitt af þeim atriðum sem kemur til með að víkja þegar lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eru felld brott. Það gerist sjálfkrafa þegar stofnun hættir að vera opinber starfsemi og verður hlutafélag. Hvernig sem á málið er litið í þessum skilningi, með tilliti til upplýsingalaga, með tilliti til stjórnsýslulaga, með tilliti til réttarstöðu starfsmanna og laga um réttindi og skyldur, þá er alls staðar verið að stíga skref aftur á bak en ekki fram á við.

Í hinu tillitinu er vandséð hvernig um stórt skref fram á við er að ræða þegar farið er að rýna í þetta frumvarp og menn reyna að koma auga á einhvern ávinning. Gefum okkur það að fyrirtæki eða starfsemi sé orðin að hlutafélagi og svo líða tímar og þessi lög koma til sögunnar, í hverju felst þessi mikla opnun, í hverju er hún fólgin? Jú, í því felst fyrst og fremst það að fjölmiðlar fá heimild til að sækja aðalfund, fulltrúum fjölmiðla er heimilt að sækja aðalfund, og taka myndir væntanlega. Þá verð ég að segja að þær tillögur sem liggja fyrir í hugmyndum Samfylkingarinnar hugnast mér miklu betur. Þær ganga mun lengra og kalla á meiri opnun og meira gagnsæi hvað þessa þætti snertir.

Hitt vil ég þó leggja áherslu á að ég tel að í þeirri starfsemi sem nú stendur til að færa út á markaðstorgið væri miklu betra heima setið. Hægt er að gera miklar og róttækar breytingar á stjórnsýslu stofnana á borð við Flugmálastjórn og Ríkisútvarpið og á borð við rannsóknarstofnanir í matvælaiðnaði án þess að fara út á þessa braut. Ég tel þetta því ekki vera vænlega valkosti, þetta eru ekki góðir valkostir, hvorki hlutafélag í gömlum stíl eða í nýjum, og þar nefni ég bæði frumvarp ríkisstjórnarinnar og Samfylkingarinnar. Ég tel þetta ekki vera heppilegra rekstrarform þegar um er að ræða opinbera starfsemi af því tagi sem ég taldi upp núna.

Ég nefni þá einnig til sögunnar annað fórnarlamb ríkisstjórnarinnar sem er rafmagnsgeirinn, taka á hann og einkavæða. Við fréttum af því í morgun að nú væri búið að selja Essó, en fyrrverandi eigandi, Ólafur Ólafsson, lét þess getið í fréttaviðtali ekki alls fyrir löngu að það væri góður kostur fyrir nýja eigendur þess fyrirtækis að fara að leita fyrir sér í fjárfestingum í rafmagni og vatni. Þetta væru þau svið sem ríkisstjórnin er núna að setja í pakkningarnar fyrir markaðsvæðingu.

Þetta verðum við að hafa í huga þegar við ræðum um þessi breyttu form og þessi frumvörp. Viljum við fara úr samfélagslega rekinni starfsemi yfir í einkaréttarfyrirkomulagið? Með þeim afleiðingum að réttarstaða starfsmannanna verður öll lakari og hún verður rýrari og aðgengi almennings að upplýsingum verður að sama skapi minna en áður. Þetta tel ég vera hluti sem við þurfum að hafa rækilega í huga.

Síðan er það hitt sem hv. þm. Jón Bjarnason kom svo ágætlega að í andsvari við hæstv. iðnaðarráðherra þegar hún kynnti frumvarpið, það var um hvar til standi að vista hlutina eða hlutinn. Verið er að skapa ólýsanlegan glundroða í rekstri hins opinbera þar sem fyrirtækjum er komið fyrir nánast út og suður. Hv. þm. Jón Bjarnason vék að því að þegar Síminn, Póstur og sími var fyrst gerður að hlutafélagi með fyrirheitum um að það stæði aldrei til að selja hann náttúrlega eins og alltaf er gert samkvæmt formúlunni, þá var hlutabréfið vistað hjá hæstv. samgönguráðherra í samgönguráðuneytinu. Síðan líða stundir og stjórnendur Símans á bak við og undir huliðshjálmum fara að fjárfesta út og suður og menn átta sig á því að þetta er að verða enn ein braskbúllan nánast, þá er hlutabréfið fært úr samgönguráðuneyti yfir í fjármálaráðuneytið. Þetta eru spurningar sem við höfum ekki fengið svör við, hvaða háttur á að verða hafður á í þessu efni yfirleitt.

Að lokum þetta, hæstv. forseti. Hvers vegna breyta menn opinberri starfsemi yfir í hlutafélög? Hvers vegna gera menn það, hvers vegna að nýta hlutafélagaformið? Það er líka rétt sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði, að hlutafélagaformið er mjög gott til síns brúks og ég get alveg tekið undir að hlutafélag er skýrt rekstrarform og það hentar vel við tilteknar aðstæður. Hverjar eru þær aðstæður? Eitt hið jákvæðasta við hlutafélagaformið er að það auðveldar kaup og sölu. Hér fyrr á tíð áður en það eignarhald varð útbreitt reyndist eigendum fyrirtækja iðulega erfitt að selja það í heilu lagi, það reyndist mjög erfitt að koma því í viðskipti, að selja það ef hugur manna stóð til þess. Stundum var það svo að menn vildu fá meira fé inn í starfsemina og voru tilbúnir að selja hluta hennar en ekki alla. Hlutafélagaformið er því gott að þessu leyti til, það gerir söluna auðveldari, að selja hluti. Við erum hins vegar að tala um „hlutsfélag“, nánast í eintölu, þannig að þessi kostur hlutafélagaformsins nýtist ekki. (Gripið fram í.)

Annað sem er gott og jákvætt við hlutafélagaformið þar sem það á við er aðhaldið frá hluthöfunum, aðhaldið frá eigendunum. Þá eru þeir virkjaðir, þrýstingur þeirra og aðhald á hluthafafundum þar sem þeir gera kröfu um arð, um að fá fjármuni út úr fyrirtækinu, um markvissan rekstur o.s.frv., aðhaldið frá hluthöfunum. Hvernig á að virkja það í hlutafélagi þar sem hluturinn er einn og þar sem hann er settur undir einn tiltekinn ráðherra og enginn fær að vita hvernig á að fara með hann eða hver sjónarmið, markmið og kröfur þessa gæsluaðila eru? Hvers konar rugl er þetta eiginlega? Hvers konar endemis vitleysa er þetta?

Þess vegna skil ég menn á borð við hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Birgi Ármannsson, núverandi forseta, og hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, sjálfstæðismenn sem vilja breyta þessum félögum og þar með Ríkisútvarpinu í hlutafélög og selja. Það er rökrétt. Þá ætla menn að nýta sér kosti hlutafélagaformsins til hins ýtrasta, nota það til þess að selja og skapa nýtt aðhald á markaði.

Ég vil hins vegar ekki fara þá leið. Ég vil Ríkisútvarp í almannaeign. (Gripið fram í: Ekkert aðhald?) Jú, ég vil aðhaldið héðan og ég vil breikka það og víkka í stað þess að það endurspegli stjórnarmeirihluta á Alþingi, en verið er að festa pólitísk heljartök á þessum stofnunum, þar með Ríkisútvarpinu með því frumvarpi sem nú liggur fyrir. Í stað þess að gera það á að opna fleiri leiðir út í þjóðfélagið. Um þetta liggur fyrir frumvarp með þessum tillögum.

Þess vegna segi ég, gott og vel, ræðum breytingar á þessum lögum en þetta eru ekki þeir valkostir sem eru heppilegastir, að taka opinbera starfsemi, almenna þjónustu, (Forseti hringir.) og færa undir hlutafélagaformið.