132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[14:58]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Mörður Árnason og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafa nefnt frumvarp sem þau flytja sem verður hér síðar á dagskrá.

Þar stendur, með leyfi herra forseta:

„Heimilt er að setja ákvæði í sérlög eða samþykktir fyrir opinbert hlutafélag þess efnis að aukinn meiri hluta þurfi á Alþingi eða í sveitarstjórn fyrir samþykki um sölu.“

Nú er það svo að einfaldur meiri hluti á Alþingi ræður lagasetningum almennt í öllum lögum. Meiri hluti þingmanna þarf að vera viðstaddur atkvæðagreiðslu. Verði sett sérlög eins og ákvæði um aukinn meiri hluta þá getur Alþingi ákveðið, með einföldum meiri hluta, að afnema þetta ákvæði og síðan selt fyrirtækið með einföldum meiri hluta.