132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[15:21]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig ástæða til að fagna því að hæstv. viðskiptaráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög sem snerta opinber hlutafélög, eða að hægt sé að koma á fót opinberum hlutafélögum eins og við í Samfylkingunni höfum verið að hvetja til. En að sama skapi veldur þetta stjórnarfrumvarp vonbrigðum vegna þess að í því er að finna fá bitastæð ákvæði og þegar grannt er skoðað er þetta hvorki fugl né fiskur þannig að efnahags- og viðskiptanefnd sem fær málið til meðferðar á ærið verk fyrir höndum að fara yfir þetta mál og gera þetta að einhverri bitastæðri löggjöf. Þar vísa ég til frumvarps sem flutt er af Samfylkingunni undir forustu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þar eru mörg ákvæði sem ég held að afar brýnt sé að efnahags- og viðskiptanefnd reyni að ná samstöðu um að færa inn í frumvarp ráðherrans til að það verði eitthvert hald í þessari löggjöf. Ég legg því áherslu á að þessi frumvörp fari samhliða út til umsagnaraðila og fái umfjöllun samhliða í efnahags- og viðskiptanefnd.

Þessi tvö frumvörp hafa verið borin saman af 1. flutningsmanni hins frumvarpsins um opinber hlutafélög og mjög skýrt hefur verið dregið fram hvaða mismunur er á þeim og hvað frumvarp hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur er miklu markvissara, skýrara og betra en frumvarp ráðherrans.

Ég vil þá fara yfir nokkur atriði í stjórnarfrumvarpinu sem ég tel ástæðu til að gera hér að umræðuefni. Fyrst vil ég nefna 2. gr. frumvarpsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Við kjör í stjórn opinbers hlutafélags skal gæta sérstaklega að lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.“

Þetta segir út af fyrir sig ekki neitt. Það segir ekkert meira en raunveruleg framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um að leitast skuli við og gætt sérstaklega að jafna stöðu karla og kvenna, þannig að mér finnst þetta ekki segja neitt mikið meira.

Þá er ástæða til að skoða hvað hæstv. ráðherra hefur sagt um þetta og hver staðan er raunverulega hér á landi samanborið við Norðurlandaþjóðirnar hvað varðar hlut kynjanna í stjórnum fyrirtækja. Um þetta spurði ég hæstv. fjármálaráðherra á síðasta löggjafarþingi. Ég spurði um hlut kynjanna í 50 stærstu hlutafélögunum á atvinnu- og fjármálamarkaði og þar kom í ljós að í stjórnum 50 stærstu hlutafélaganna á árinu 2003 þá sátu 246 einstaklingar þar af 231 karl og 15 konur og karlar voru því samtals 93,9% af stjórnarmönnum 50 stærstu hlutafélaganna á atvinnu- og fjármálamarkaði en konur samtals 6,1%. Þannig var staðan þar og þegar spurt var um lífeyrissjóðina þá kom þetta svipað út, heldur betur að vísu. Það var spurt um hver kynjaskiptingin væri í stjórnum 10 stærstu lífeyrissjóðanna og í stjórnunarstöðum hjá þeim, þá kom fram að karlar í stjórnum þessara 10 stærstu lífeyrissjóða voru tæplega 91% en konur innan við 10%.

Ég átti þá orðastað við hæstv. ráðherra í framhaldi af þessum hans og beindi til hæstv. viðskiptaráðherra fyrirspurn um hvort hún teldi ekki ástæðu til að gera eitthvað í málinu og hvort hún væri reiðubúin að beita sér fyrir lagabreytingu um tiltekið lágmarkshlutfall af hvoru kyni í stjórnum hlutafélaga. Vilji hæstv. ráðherra kom greinilega fram í svari ráðherrans þá, því þetta var fyrir ári síðan, um að auka hlut kvenna í stjórnum hlutafélaga og vísaði ráðherrann þá til þess að hún hefði 12. október, þ.e. fyrir rúmu ári síðan, í samræmi við jafnréttismál til fjögurra ára skipað nefnd til að kanna hvort unnt væri að fjölga konum stjórnum fyrirtækja m.a. með breytingu á löggjöf á sviði viðskiptaráðuneytisins. Það kom einnig fram í svari ráðherrans sem ég ætla að fá að vitna í, með leyfi forseta:

„Til fróðleiks,“ segir ráðherrann, „vil ég nefna til hvaða aðgerða hefur verið gripið annars staðar á Norðurlöndum til að fjölga konum í stjórnunarstöðum í fyrirtækjum. Almennt má segja að Svíar og Norðmenn hafi gripið til lagasetningar. Í Danmörku og Finnlandi eru í gildi lög um kynjahlutföll í opinbera geiranum en í báðum löndum hafa verið valdar aðrar leiðir en lagasetning til að ná sama markmiði í einkageiranum. Ég vil fjalla aðeins nánar um Noreg. Í desember 2003 voru samþykktar í Noregi lagabreytingar sem miða að því að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja. Með lögunum voru gerðar breytingar á reglum félagaréttar um samsetningu stjórna í öllum opinberum fyrirtækjum. Gerðar eru kröfur um að kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækjanna sé í megindráttum þannig að að minnst 40% stjórnarmanna séu af hvoru kyni. Lögunum verður framfylgt á grundvelli almennra reglna um hlutafélög þannig að ef sú stjórn sem tilkynnt er til hlutafélagaskrár uppfyllir ekki lagaskilyrði um kynjahlutfall og félagið nýtir ekki rétt sinn til að leiðrétta það getur það leitt til þess að félagið verði leyst upp. Lögin tóku gildi 1. janúar 2004.“

Nú höfum við fyrir okkur að þessi nefnd sem hæstv. ráðherra var að vitna í hefur starfað í a.m.k. ár, ef ég skil þetta rétt, og ekki langt síðan nefndin skilaði af sér eða í októbermánuði sl. Það eru ansi þunnar tillögur sem lagðar eru fram um með hvaða hætti eigi að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja. Þegar hæstv. viðskiptaráðherra kynnti niðurstöðu nefndarinnar í fréttum komu fram eftirfarandi aðgerðir til úrbóta: Lagt er til að farvegur fyrir umræðu og þekkingaröflun verði tryggður, að reglulega verði birtur listi með upplýsingum um fjölda og hlutfall kvenna í stjórnum, tengsl kvenna innbyrðis og við karla verði efld, leitarskilyrði og sjóndeildarhringur við skipan í stjórnir verði víkkaður, fyrirtækin verði hvött til að setja konur á dagskrá og karlar í áhrifastöðum verði fengnir til að gera málið að sínu. Þetta voru tillögurnar eftir ársvinnu nefndarinnar. Þær voru ekki beysnari en það að tryggja farveg fyrir umræðu og þekkingaröflun og efla tengsl kvenna og víkka leitarskilyrði og sjóndeildarhring við skipan í stjórnir og hvetja fyrirtæki til að setja konur á dagskrá.

Hæstv. ráðherra svaraði af þessu tilefni þegar hún kynnti tillögurnar og vísa ég til fréttar um þetta efni, með leyfi forseta:

„Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra kvaðst mótfallin lagasetningu en ekki útiloka að hún skipti um skoðun á síðari stigum ef hægt miðaði í jafnréttisátt.“

Mér finnst hæstv. ráðherra ganga afar hægt í þessu efni og mér finnst hæstv. ráðherra skorta kjark, að gera nú ekki tilraun með þetta í löggjöf eða frumvarpi sem við erum hér að fjalla um varðandi opinber hlutafélög. (Gripið fram í.) Opinber hlutafélög merkir í lögum þessum félag sem hið opinbera á að öllu leyti. Það er ekki verið að tala um að setja þetta ákvæði inn í löggjöf um hlutafélög varðandi einkahlutafélög heldur aðeins um fyrirtæki sem eru í eigu hins opinbera. Þetta eru þær leiðir sem hafa verið farnar annars staðar á Norðurlöndunum en hæstv. ráðherra heykist á hér. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra frá því að þessi hvatning kom frá ráðherranum og þessar tillögur frá nefndinni um að bíða og sjá til hvort fyrirtækin taki ekki við sér, hvetja fyrirtækin til að setja konur á dagskrá, hvað hafa verið haldnir margir aðalfundir hjá þessum stærstu félögum síðan þessi hvatning kom fram hjá fjármálafyrirtækjum og þessum stærri félögum? Getur ráðherrann nefnt eitt fyrirtæki sem hefur sett konu í stjórn þessara fyrirtækja og orðið við áeggjun ráðherrans um að fjölga konum í stjórnum? Ég skora á ráðherrann að nefna eitt fyrirtæki sem hefur fjölgað konum í stjórnunarstöðum eftir að þessar tillögur komu fram. Ég held að þessar tillögur nefndarinnar, sem hún skilaði af sér eftir ársvinnu, séu nefnilega algerlega gagnslausar og ég held að það sé ekkert öðruvísi hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum, að það þarf að fara þá leið að setja í lagatexta ákvæði um að það eigi að jafna stöðu kynjanna í stjórnum hlutafélaga með líkum hætti og lagt er til í frumvarpi hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þar er lagt til, með leyfi forseta:

„Í opinberum hlutafélögum þar sem fulltrúar íslenska ríkisins eða sveitarfélaga, eins eða fleiri, skipa meiri hluta stjórnarmanna skal hlutfall kynja í stjórn vera sem jafnast og hvort kyn um sig skal ekki vera undir 40% fulltrúa stjórnarmanna.“

Það er þetta ákvæði sem hæstv. ráðherra hefði auðvitað átt að hafa inni í frumvarpi sínu ef hún meinar eitthvað með því að það sé vilji og kjarkur hjá ráðherranum til þess að grípa til aðgerða sem duga, virðulegi forseti, til að fjölga konum í stjórnum hlutafélaga. Það er greinilegt að sú leið sem ráðherrann ætlar að gera að sínum, sem eru tillögur þessarar nefndar, munu ekki duga til að við sjáum einhverja fjölgun sem máli skiptir að því er varðar konur í stjórnunarstöðum. Þetta er ákvæði sem við í Samfylkingunni munum leggja mikla áherslu á í störfum nefndarinnar að fá inn og ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur ráðherra eitthvað á móti því að setja inn slíkt ákvæði ef um það næst bærileg samstaða í efnahags- og viðskiptanefnd sem fær þetta mál til meðferðar? Ég held að það sé brýnt að við fáum það fram við þessa umræðu hvort ráðherrann muni styðja það ef slíkt ákvæði kemur fram, muni styðja þannig breytingartillögu við frumvarp sitt, hvort sem hún kæmi frá minni hlutanum eða að um hana næðist samstaða við meiri hlutann. Ef ekki vil ég spyrja ráðherrann um rök fyrir því vegna þess að enn og aftur ítreka ég að við erum bara að fjalla um opinber hlutafélög en ekki önnur.

Hér hefur verið rætt um upplýsingalögin og þar kemur enn fram munurinn á þessum tveimur frumvörpum, en í frumvarpi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur er einmitt afar mikilvægt ákvæði sem við þurfum endilega að fá samstöðu um að taka upp í nefndinni. Þar segir í 7. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Réttur til upplýsinga skv. 1. og 2. mgr. skal vera sambærilegur og kveðið er á um í upplýsingalögum, nr. 50/1996, en undanskilja má upplýsingar sem varða samkeppnisrekstur félagsins.“ Fyrr í þessari grein segir: „Í félagi þar sem íslenska ríkið á meiri hluta hlutafjár skal félagsstjórn og framkvæmdastjóri veita alþingismönnum upplýsingar um starfsemi félagsins og ákvarðanir þess verði eftir því leitað.“

Þetta er afar mikilvægt ákvæði, virðulegi forseti, til að þingmenn geti sinnt því hlutverki sem þeir hafa, þ.e. að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Eftir því ákvæði hefur lengi verið kallað í þingsölum, m.a. af hv. fyrrverandi þm. Guðmundi Árna Stefánssyni og fleiri þingmönnum Samfylkingarinnar. Þar lögðum við til breytingar á lögum um þingsköp þar sem m.a. bættist við að veita ætti upplýsingar til þingmanna væri um þær beðið, ef um væri að ræða málefni sameignar- eða hlutafélags sem gerði grein fyrir B-hluta ríkisreiknings og ríkið ætti að hálfu eða meira. Og það er staðreynd sem ekki er hægt að neita að eftir að hlutafélagavæðing ríkisfyrirtækja hófst fyrir nokkrum árum hefur hreinlega margsinnis verið lokað á mikilvægar upplýsingar sem þingmenn kölluðu eftir. Ég man bæði eftir því varðandi bankana, Póst og síma og fleiri fyrirtæki. Þetta kemur fram í þessu frumvarpi Guðmundar Árna Stefánssonar og þar vísar hann til skýrslu nefndar sem fjallaði um starfsskilyrði stjórnvalda, eftirlit með starfsemi þeirra og viðurlög við réttarbrotum í stjórnsýslunni. Sú skýrsla var unnin í samræmi við þingsályktunartillögu sem ég flutti og hæstv. forsætisráðherra skipaði nefnd til að vinna hana, ég held að það hafi verið undir forustu Páls Sveinssonar, mjög gagnleg skýrsla. Það þyrfti eiginlega að dusta rykið af þeirri skýrslu því þar voru lagðar fram ýmsar góðar tillögur um bætta skipan í stjórnsýslunni. Þar var m.a. sagt, með leyfi forseta:

„Til þess að rækja eftirlitshlutverk sitt og veita ríkisstjórn aðhald hefur Alþingi stjórnarskrárvarinn rétt til að afla upplýsinga frá ráðherra.“ Síðar í sama kafla segir. „Leggja verður til grundvallar að fyrrnefndur réttur alþingismanna til aðgangs að upplýsingum um opinber málefni ráðist ekki af upplýsingalögum heldur byggist hann á sjálfstæðri heimild sem er að finna í 54. gr. stjórnarskrárinnar.“ Og síðan segir: „Annað mál er að hægt er að hafa hliðsjón af ákvæðum upplýsingalaga við túlkun 54. gr. stjórnarskrárinnar. Æskilegt er að tekið verði til athugunar hvort ástæða þykir til að setja nánari ákvæði í þingskapalög um slíkar fyrirspurnir.“

Þetta er frá nefnd forsætisráðherra sem tekur þá greinilega undir með mörgum þingmönnum að það þarf að styrkja rétt þingmanna til að fá aðgang að upplýsingum hjá fyrirtækjum sem breytt hefur verið í hlutafélög og eru í ríkiseigu að hálfu eða meira. Ég álít því að afar brýnt sé að taka inn þessi tvö ákvæði sem ég nefndi varðandi upplýsingalögin og rétt alþingismanna til að fá upplýsingar um starfsemi félagsins og ákvarðanir þess verði eftir því leitað, þ.e. þessi opinberu hlutafélög. Þetta tvennt legg ég afar mikla áherslu á, að sett verði inn ákvæði sem máli skipta til að auka hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja og að ákvæðið verði sett inn að því er varðar upplýsingalögin og síðan þennan rétt sem alþingismenn mundu fá til að afla sér upplýsinga um starfsemi félags sem breytt hefur verið í opinbert hlutafélag.

Ég hef fylgst aðeins með umræðunni og hlustað á hæstv. ráðherra. Þingmenn hafa verið að kalla eftir því að fá þessi ákvæði inn og mér finnst rök ráðherrans afar máttlaus, virðulegi forseti, að því er þetta varðar og þetta er nokkuð sem við munum leggja gífurlega mikla áherslu á að fá inn í þetta frumvarp og mér þætti mjög vænt um það, virðulegi forseti, ef hæstv. ráðherra gæti rökstutt af hverju ekki er ástæða til að setja þetta inn með þessum hætti þannig að rök ráðherrans haldi vegna þess að ég gat ekki heyrt að svo væri.

Ég sé að tími minn er að verða búinn. Ég geri ráð fyrir því, ef ráðherrann gerir ekki athugasemd við það að ákvæðin sem fjalla á um í þeim frumvörpum sem koma á eftir um hlutafélög og fjalla um starfshætti og stjórnir fyrirtækja og starfskjör stjórnenda, að þau ákvæði eigi við þessi opinberu hlutafélög líka af því að þau eru felld inn í hlutafélagalöggjöfina. Ég geng því út frá því að þau falli þar inn en það eru ákvæði sem ég þarf að ræða við ráðherrann á eftir vegna þess að mér finnst þau miklu veikari en efni standa til hjá hæstv. ráðherra.

Ég get líka tekið undir það sem fram hefur komið hjá öðrum að ákvæðið varðandi fjölmiðlana er afar veikt og það er erfitt að skilja hvert innihaldið er þar sem verið er að heimila fjölmiðlum að sækja aðalfundi í þessum félögum. Það er ekki hægt að sjá að það hafi neinn sérstakan tilgang. Ákvæði í frumvarpi Ingibjargar Sólrúnar, t.d. um rétt sveitarstjórnarmanna og alþingismanna til að sækja slíka fundi tel ég mjög mikilvægt og líka ákvæðið um að mælt er fyrir að það þurfi samþykki alþingismanna og/eða sveitarstjórnarmanna þegar um slík fyrirtæki er að ræða, til að selja hlut ríkis eða sveitarfélaga í hlutafélagi.

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt sem við þurfum að skoða í efnahags- og viðskiptanefnd þegar við fáum þetta mál til umræðu og ég hvet til þess að mál sem er síðar á dagskránni og fjallar um frumvarp hv. þingmanna Samfylkingarinnar komist á dagskrá áður en þessum fundi lýkur í dag þannig að hægt sé að ræða þessi mál samhliða í efnahags- og viðskiptanefnd.