132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[16:07]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég rifjaði upp í ræðu minn ferilinn við hlutafélagavæðingu og sölu Símans. Þar voru gefnir svardagar um að Síminn yrði ekki seldur heldur væri verið að aðlaga hann einhverju rekstrarumhverfi sem menn töldu að væri betra fólgið í hlutafélagaforminu.

Nú hefur Síminn verið seldur. Ég bendi meira að segja á í því sambandi að skoðanakannanir, bæði á vegum Gallups og Félagsvísindastofnunar, opinberar skoðanakannanir sýndu að stór hluti þeirra sem þar voru spurðir, yfirgnæfandi hluti var andvígur því að selja þessa grunnþjónustu Símans. Samt var hann seldur og við upplifum nú, víða úti um land, að verið er að loka starfsstöðvum Símans, segja upp fólki sem hefur unnið þar árum saman, verið að skerða þjónustustig Símans víða úti um land. Þetta finnst hv. þm. Hjálmari Árnasyni kannski ekkert mál. Mér finnst það mál.

Nú á að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. Við þekkjum skoðun og yfirlýsingar Sjálfstæðisflokksins, meira að segja landsfundar og félagsfunda hjá þeim, og einstakra þingmanna sem flutt hafa frumvarp um að það skuli selt. Enda er hlutafélagaformið fyrst og fremst til þess að hægt sé að selja hluti eða versla með hluti í fyrirtækinu. Ég tel það ekki rétt, ég tel að Ríkisútvarpið eigi að vera alveg óskoruð (Forseti hringir.) félagsleg eign þjóðarinnar.