132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[16:11]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hér datt nú hv. þingmaður ofan í sjálfan sig með það að nauðsynlegt sé að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag til að gera það samkeppnishæfara. Það sem Ríkisútvarpið skortir er aukið fjármagn inn í starfsemi sína til að mæta þeim skyldum og þeim eðlilegu kröfum sem við gerum til þjóðarútvarps. Þessi lög um að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið fela ekki í sér neitt viðbótarfjármagn. Þar stendur málið.

Ég rifja líka aftur og aftur upp svardagana sem gefnir voru þegar Síminn var hlutafélagavæddur. Ég hygg að þáverandi samgönguráðherra hefði tekið það mjög óstinnt upp ef hann hefði verið vændur um að meina ekki það sem hann var að segja, að Síminn yrði aldrei seldur. Ég vil bara vara við þeirri stefnu sem hér er verið að fara inn á, að hlutafélagavæða, einkavæða almannaþjónustu eins og Ríkisútvarpið, Rarik og matvælaeftirlitið. Við erum hér á kolrangri leið.

Af því að hv. þm. Hjálmar Árnason minntist á hver væri í sambandi við grasrótina þá hefur einmitt einkavæðingin, hlutafélagavæðingin á almannaþjónustunni, verið baráttumál Framsóknarflokksins í núverandi ríkisstjórn. Þeir hafa dregið þar vagninn. Ég sé ekki að sú stefna Framsóknarflokksins sé í miklu samræmi við það sem grasrótin vill, þveröfugt. Hv. þm. Hjálmar Árnason ætti kannski að snúa sér að því að (Forseti hringir.) líta í eigin barm (Forseti hringir.) og athuga hvort ekki þurfi að rétta kúrs Framsóknarflokksins.

(Forseti (DrH): Ég vil biðja hv. þingmann að virða ræðutímann.)