132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[16:23]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vísar til samkeppniseftirlits. Við höfum reynslu af Samkeppnisstofnun þar sem mál hrönnuðust upp. Ég vil sérstaklega minnast á eitt fyrirtæki sem var í eigu ríkisins, Landssímann hf. Margir minni aðilar voru í samkeppni við Landssímann og þegar þeir leituðu eftir svörum um hvort fyrirtækið hefði farið eftir samkeppnislögum fengust engin svör. Ekki einu sinni á hinu háa Alþingi þegar ég spurði m.a. formann Sjálfstæðisflokksins að þessu. Þá var hlaupið í skjól hlutafélagalaganna. Ég hefði einmitt talið að fyrir flokk sem vill hafa samkeppni og stuðla að henni hefðu menn einmitt átt að upplýsa um það. Það var náttúrlega mjög óeðlilega staðið að þessu hjá formanni Sjálfstæðisflokksins að leyna því hvort hlutafélag í eigu ríkisins færi að samkeppnislögum eða ekki.

Mér finnst það minnka trúverðugleika þessara flokka þegar þeir koma nú og þykjast vera að setja einhver lög um upplýsingamál sem eru í raun að aftengja þá upplýsingaskyldu sem viðkomandi stofnanir hafa, eins og Ríkisútvarpið og fleiri.