132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[16:25]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er dálítið merkilegt að þegar við setjum á laggirnar eftirlitsstofnanir sem eiga að vera óháðar stjórnvöldum og menn eiga að treysta að starfi að því sem þær eiga að gera, skatteftirlit, samkeppniseftirlit o.s.frv., skuli þingmenn kalla eftir því að hæstv. ráðherrar hlutist til um þau verkefni sem viðkomandi stofnun sinnir. Auðvitað á samkeppniseftirlit að sinna samkeppnismálum en ekki einstakir ráðherrar svo maður tali ekki um einstaka hv. þingmenn. Ég get því ekki fallist á að hæstv. ráðherra hefði átt að blanda sér inn í deilurnar á milli Landssímans og annarra samkeppnisaðila.

Hins vegar er búið að breyta lögum um samkeppniseftirlit, það heitir nú Samkeppniseftirlit en hét áður Samkeppnisstofnun og búið er að samþykkja stórauknar fjárveitingar. Það er því von til þess að þeir geti sinnt frekar því verkefni sem þeir búa við sem er mjög vaxandi í stórauknu viðskiptalífi.