132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[16:41]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri það að hv. þingmaður hefur ekki svör við þeim spurningum sem ég lagði hér fram. Hann, eins og aðrir þingmenn hv. Samfylkingarinnar, er greinilega ekki búinn að úthugsa þessa 40% reglu.

Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að það sé til þess að þjóna hagsmunum fyrirtækja sem eru í eigu ríkisins og verða og eru opinber hlutafélög, að alþingismenn og sveitarstjórnarmenn geti sótt hluthafafundi og aðalfundi og haft þar málfrelsi eins og þeim sýnist? Það er það sem kemur fram í frumvarpi hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.

Þá vil ég einnig ítreka að þetta ákvæði sem kemur fram í frumvarpinu og varðar aukinn meiri hluta, og þetta hafa aðrir hv. þingmenn komið inn á hér líka eins og hv. Pétur Blöndal um þennan aukna meiri hluta, að það er ákvæði í frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið hf., þar sem segir að það skuli ekki selt nema með samþykki Alþingis. Það þarf ekki nema einfaldan meiri hluta hér á hv. Alþingi til þess að taka ákvörðun um að gera það, að selja það fyrirtæki. Ég er síður en svo að mæla með því að það verði gert en þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir og þetta eru hefðirnar hérna á Alþingi, það er meiri hlutinn sem ræður og við erum vön því að vera með meirihlutastjórnir og ríkisstjórnir sem styðjast við meiri hluta Alþingis og þannig tel ég að það eigi að vera áfram.