132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[16:45]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við erum að ræða frumvarp um breytingu á lögum um hlutafélög. Í sjálfu sér er það mjög jákvætt að vera að ræða um upplýsingaskyldu, aðgang fjölmiðla að opinberum hlutafélögum og annað. Mér finnst samt sem áður að hæstv. iðnaðarráðherra hafi ekki tekið þeirri málefnalegu gagnrýni nægjanlega vel sem hefur komið fram á frumvarpið og ekki svarað þeim spurningum sem fram hafa komið. Það hafa komið mjög góðar spurningar út í frumvarpið, t.d. hvað varðar greinina um fjölmiðla, 5. gr. Hún orðast svo:

„Fulltrúum fjölmiðla er heimilt að sækja aðalfund.“

Spurt hefur verið um hvað þetta þýðir og fátt hefur verið um svör. Síðan virðist vera sem farið hafi svolítið fyrir brjóstið á hæstv. iðnaðarráðherra að ýmsir hv. þingmenn hafa verið meira skotnir í öðru frumvarpi sem Samfylkingin hefur flutt. Það er eins og komið hafi upp einhver afbrýðisemi, því hæstv. fjármálaráðherra áttar sig á að það frumvarp sinnir upplýsingaskyldu eilítið betur, eða miklu betur. — Hæstv. viðskiptaráðherra, ef ég mismælti mig þá vonast ég til að hæstv. ráðherra taki því ekki illa því það var ekki illa meint. Ég ætlaði ekki að vanvirða hæstv. ráðherra með nokkru móti. — Ég verð var við að hæstv. ráðherra tekur því ekkert afskaplega vel þegar menn lýsa því að það frumvarp nái miklu betur utan um upplýsingaskylduna. Ég átta mig ekki á því hvers vegna hæstv. ráðherra er svona foj því það frumvarp nær miklu betur utan um það markmið sem fram kemur en það frumvarp sem við nú ræðum. En hættan er, ef við gerum þetta illa — við höfum því miður nýleg dæmi af því að hæstv. viðskiptaráðherra hafi farið af stað með mál sem hún hefur jafnvel misskilið. Það verður að vanda þessu vinnu í þingnefnd og taka upp ýmis ákvæði m.a. úr því frumvarpi sem verður rætt síðar í dag til að þetta frumvarp hér nái fram markmiði sínu hvað varðar upplýsingaskyldu og margt fleira.

Hvers vegna segi ég það? Jú, dæmin sanna að við þurfum að herða á þessari upplýsingagjöf. Við höfum dæmi um að upplýsingar hafi ekki borist úr opinberum hlutafélögum og vil ég nefna m.a. Landssímann. Ég ræddi í andsvari við hv. þm. Pétur H. Blöndal um það að formaður Sjálfstæðisflokksins vildi ekki greiða fyrir því að þeir sem urðu fyrir óréttmætri eða vafasamri samkeppnishindrun Landssímans, sem er í opinberri eigu, næðu fram rétti sínum. Mér fannst það miður. Það var að heyra á hv. þm. Pétri H. Blöndal að hann vildi að kerfið hefði sinn gang og það væri ekki rétt fyrir þann sem bæri pólitíska ábyrgð á fyrirtækinu að grípa þar inn í. Þó svo uppi væri staðfestur grunur um að viðkomandi fyrirtæki í eigu ríkisins væri að mylja undir sig minni fyrirtæki, þar sem þáverandi hæstv. fjármálaráðherra bar ábyrgð á, en hann mætti ekki grípa fram fyrir hendurnar á kerfinu. Kerfið yrði að hafa sinn gang. Þess vegna væri alveg sama þó svo að fyrirtæki í eigu ríkisins myldi undir sig minni fyrirtæki, jafnvel með vafasömum hætti, þá mátti eigandinn, fulltrúi okkar eigendanna, vegna þess að þetta fyrirtæki, Landssíminn, var í eigu þjóðarinnar, ekki að mati hv. þm. Péturs H. Blöndals grípa fram fyrir kerfið, þ.e. Samkeppnisstofnun. (PHB: Samkeppnisstofnun.) Einmitt. Ég misskildi það ekki. Það er þá alveg rétt, þingmaðurinn staðfestir þetta hérna í salnum að ég hafi skilið hann rétt.

En ég er ekki sammála því að svona eigi hlutirnir að ganga fyrir sig. Ég er einmitt á því að við eigum að gera ríkari kröfur til hlutafélaga sem eru í eigu ríkisins. (PHB: Láta ráðherrann stjórna þessu.) Ráðherrann stjórna þessu? Ef við tökum annað dæmi, frú forseti. Fyrirtæki eitt ætlaði að leggja niður þjónustu sem var í eigu ríkisins. Það er Íslandspóstur hf. Hann ætlaði að hætta að þjónusta íbúa við Ísafjarðardjúp að miklu leyti, eins og hann hafði gert um árabil. Ég er á því að við getum ekkert firrt þann ráðherra, hæstv. samgönguráðherra, Sturlu Böðvarsson, ábyrgð í því máli. Við getum ekki sagt að þetta sé orðið hlutafélag og síðan geti bara forstjórinn leikið þar lausum hala og jafnvel hætt að bera út póst eða geymt hann í gámi eða hvað honum dettur í hug að gera. Það er óþolandi. Og sama er, eins og ég lít á það, með Landssímann. Þegar hann var í eigu okkar allra gat hæstv. fjármálaráðherra ekkert hummað það fram af sér og sagt að þetta væri hlutafélag og það væri síðan að mylja undir sig fyrirtæki og nota jafnvel vafasama samkeppnishætti til að mylja undir sig lítil fyrirtæki, jafnvel á Vestfjörðum. Þegar maður spurði formann Sjálfstæðisflokksins um þetta, þá kom þetta honum ekkert við, þetta væri hlutafélag. Það er vafasamt. Þetta eru fyrirtæki í eigu okkar allra og við eigum að gera ríkari kröfur til þeirra. Ég vona að hæstv. viðskiptaráðherra, ég man þetta rétt, og byggðamálaráðherra hæstv. ætti að íhuga þetta, því þetta skiptir verulegu máli.

Við höfum einnig dæmi úr orkugeiranum sem, frú forseti, hæstv. iðnaðarráðherra er mjög annt um. Þar er mikil leynd. Hún er óþolandi. Hún er óþolandi vegna þess að það orsakar að ekki ríkir traust. Þegar fólk fær rafmagnsreikninginn sinn veit það ekki fyrir hvað það er að borga. Er það að borga fyrir einhverja kerfisbreytingu eða er það að niðurgreiða til stóriðjunnar? Þegar hæstv. ráðherra er spurð út í þetta segir hún að fyrir liggi skýrsla sem eigi að ræða seinna. En það sem stendur kannski umræðu um stóriðju fyrir þrifum er leyndin. Ef maður spyr hér á Alþingi um hvernig hlutirnir ganga fyrir sig fyrir austan er snúið út úr.

Ég tel að menn ættu í rauninni að snúa þessari umræðu við og spyrja okkur: Eigum við ekki að hafa allt opið? Allar upplýsingar í þessum fyrirtækjum og líta síðan til þess hvað þurfi að loka af. Í staðinn fyrir að menn loki af allar upplýsingar og veiti síðan einhverjar sem hentar í það og það skiptið. Það hefur maður orðið var við, m.a. frá Landsvirkjun. Fólk treystir því ekki þegar spurt er t.d. út í arðsemi virkjana þegar menn eru með leynd í þessum málum. Fyrir einlægan stóriðjusinna, sem hæstv. viðskiptaráðherra er, væri miklu betra fyrir hana að hafa þetta uppi á borðinu. Vegna þess að þá ríkti meira traust. Fólk tryði því að viðskiptasjónarmið réðu að hafa álver í öllum fjörðum landsins. En það sem er að gerast núna er að fólk sér að það kostar hlutfallslega minna ef raforkan fer í álver (Gripið fram í.) en ef hún færi t.d. í skipasmíðastöð norður á Akureyri. Þá borga þeir hlutfallslega hærri orku.

Ég sé að það fer í taugarnar á hæstv. ráðherra að ég skuli minnast á þetta, vegna þess að hún hafði einhver orð um að ákveðinn stjórnmálaflokkur, Samfylkingin, hefði ekki skilning á atvinnulífinu. Ég segi fyrir mína parta að svo virðist sem hæstv. iðnaðarráðherra hafi bara skilning á einum atvinnuvegi. Þá skipta aðrir engu máli. Ég er að tala um álver. Ég sé að ráðherra vissi hvað ég var að gefa í skyn, frú forseti, og gladdist þegar ég minntist á álver. Það er náttúrlega gott að geta glatt hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.)

En það er fleira sem er vert að fara yfir. Við erum búin að fara yfir Íslandspóst, Landsvirkjun, lítillega yfir rafmagnsverðið en það er Ríkisútvarpið. Ég er á því að með þessu frumvarpi erum við að afnema, ef ég fer með rétt mál, upplýsingalög og stjórnsýslulög. Þá gilda þau ekki lengur um Ríkisútvarpið. Því það verður gert að hlutafélagi í nánustu framtíð ef Framsóknarflokknum verður að ósk sinni. Hann hefur lagt fram þetta frumvarp, að með því og síðan með frumvarpi um Ríkisútvarpið verður um hlutafélag að ræða og þá eru menn að afnema upplýsingaskyldu. Ég er á því að þetta geti verið mjög vont fyrir Ríkisútvarpið. Ég sé og heyri að núverandi útvarpsstjóri finnur því öllu til foráttu að fyrirtækið sé ekki hlutafélag. En ég er ekki viss um að hann hafi þá kynnt sér til hlítar þá möguleika sem fyrir hendi eru að fara í skipulagsbreytingar og fara í þær breytingar sem hann talar um innan þess lagaramma. Ég get ekki séð annað, og hef rætt það við lögfræðinga, en að hægt sé að fara í þær skipulagsbreytingar sem hann hefur haft orð á. Að það þurfi að vera hlutafélag til að ná fram þessum skipulagsbreytingum, ég get ekki séð annað en að það sé fyrirsláttur. Það þarf þá að koma miklu frekar fram í umræðunni.

Við urðum vitni að því nýlega að hæstv. iðnaðarráðherra tók tilsögn og áttaði sig á því og hefur fengið betri skilning á málum þegar þau hafa farið til nefndar og þegar stjórnarandstaðan hefur leiðbeint hæstv. ráðherra hvað varðar t.d. lög um rannsóknir um nýtingu á auðlindum í jörðu. Ég vonast því til að þegar við förum í nefnd með þetta ágæta frumvarp sjái hæstv. ráðherra að t.d. 5. gr. bætir nú ekkert mjög upplýsingar til almennings, að fulltrúum fjölmiðla sé heimilt að sækja aðalfundi. Hvað segir þetta? Hvaða upplýsingar eiga að koma fram? Hæstv. ráðherra hefur ekkert svarað því, frú forseti. Þetta er því innantómt og ég verð að segja eftir að hafa skoðað frumvarpið — jú, hún hefur eitthvað hugleitt þetta, hæstv. ráðherra, að setja þurfi einhverjar reglur um hlutafélög. En þetta er ekkert innihald.

Hér verður frumvarp rætt síðar í dag þar sem eitthvert innihald er og raunverulegar reglur, þó svo að hægt sé að setja út á eitt og annað, eitthvað lagatæknilegt eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal minntist á, sem sumt var kannski nánast orðhengilsháttur. En þó má segja að það hafi eitthvert innihald, þannig að almenningur fái upplýsingar um eignir sínar. Er eitthvað að því? Hvers vegna þarf að loka þær af og ráðherra sitji einn að upplýsingunum? Ekki hefur fengist nein skýring á því.

Ég vonast til að þessi umræða og ýmis mál úr fortíðinni, t.d. með Landssímann, að það var aðeins fyrir að einhver maður hafði komist í gögn í bókhaldi fyrirtækisins og sagt frá því, litli landssímamaðurinn, að upplýsingar fengust, frú forseti, úr fyrirtæki sem allir hefðu í rauninni átt að fá aðgang að. Litli landssímamaðurinn sagði okkur frá því að fyrirtækið ætti í viðskiptum við stjórnarformanninn og hann var rekinn vegna þess.

Eigum við ekki að nálgast umræðuna með því að hafa sem mest opið í okkar litla samfélagi í stað þess að loka allt af. Ég er á því, frú forseti. Ég vonast svo sannarlega til að þetta ágæta frumvarp hæstv. viðskiptaráðherra taki umtalsverðum breytingum í nefnd.