132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

444. mál
[17:18]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við erum með hér til umfjöllunar er jákvætt að ég held að flestu leyti til og flest þar til bóta á stjórnarháttum fyrirtækja og gagnsæi og minnihlutavernd í hlutafélögum. En mig langar samt til að spyrja iðnaðar- og viðskiptaráðherra vegna þessa frumvarps. Ég veit náttúrlega ekki hvort hæstv. ráðherra getur svarað þeirri spurningu, en ég leit svo á þegar skýrslan um viðskiptaumhverfið var gefin út að út úr henni kæmi einhvers konar trílógía, þ.e. þrenns konar lagafrumvörp: um samkeppnismál, það hefur verið flutt hér og samþykkt; um hlutafélög, það liggur hér fyrir, og svo um ársreikninga og endurskoðendur. Ég vildi spyrja viðskiptaráðherra hvort hún vissi hvað því máli liði.

Þá vildi ég líka spyrja ráðherra hvar ákvæðinu um að lífeyrissjóðir og verðbréfasjóðir verði skyldugir að gera eigendum sínum grein fyrir nýtingu atkvæðisréttar í þeim félögum sem þeir fjárfesta í, verði fyrirkomið og hvernig. Það var eitt af því sem fjallað var um í skýrslunni.

Og loks, virðulegur forseti, spyr ég um 3. gr. þar sem segir að félagsstjórn í félagi skuli samþykkja stefnumið félagsins varðandi laun og aðrar greiðslur til framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda félagsins, svo og stjórnarmanna þess. Mér finnst eins og þarna sé ákveðinn hagsmunaárekstur á ferðinni, þ.e. að félagsstjórnin samþykki stefnumið varðandi sín eigin stjórnarlaun. Ég spyr af hverju þessu er fyrirkomið með þessum hætti.