132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

444. mál
[18:05]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir ágætisathugasemdir frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og ég tala nú ekki um formanni efnahags- og viðskiptanefndar fyrir að hafa tekið til máls hér.

Að sjálfsögðu þarf að fara vel yfir þetta mál í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og þar verður farið yfir rökstuðning sem snýr að því hvers vegna frumvarpið er ekki nákvæmlega það sem kom út úr viðskiptalífsnefndinni. Það er rétt hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að ekki er tekið á öllum þeim atriðum sem þar voru sett fram. Það á allt sínar skýringar að mínu mati. Ég tel að við höfum farið bil beggja og því hafi vissulega komið fram athugasemdir við ákveðna þætti. Það er ekki þar með sagt að tekið hafi verið tillit til þess alls.

Það er þó eitt atriði sem ég vil byrja á að ræða og varðar líka fyrirspurn frá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Ég vil, með leyfi forseta, endurtaka hluta úr ræðunni sem ég flutti áðan:

„Felld hafa verið niður ákvæði um störf stjórnarformanns í hlutafélögum og ákvæði um viðskipti við tengda aðila í hlutafélögum. Viss ákvæði í hlutafélagalögum og ásetningarlögum snerta eftir sem áður þessi atriði. Þannig eru takmarkandi ákvæði nú þegar í hlutafélagalögum, þ.e. þess efnis að framkvæmdastjórar megi ekki jafnframt vera stjórnarformenn.

Hvað snertir viðskipti við tengda aðila í hlutafélögum voru sett svipuð ákvæði um það efni í ársreikningalög síðasta vor.“

Svipuð ákvæði voru sem sagt sett í ársreikningalög. Þetta er eitt af því sem hv. nefnd getur skoðað frekar.

Síðan var það ákvæði í 3. gr. sem hv. þingmaður talar um og varðar leiðbeinandi ákvæði eða ekki, sum eru sem sagt bindandi fyrir félagastjórn eins og kemur fram í textanum. En ég held að þetta sé eitt af því sem þarf bara að skoða frekar í nefndinni. En hluthafafundur þarf að samþykkja svokallaða starfslokasamninga eins og þar kemur fram.

Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal, að auðvitað setur Kauphöllin sér strangar reglur og þau félög sem þar eru skráð þurfa að lúta þeim. Þau ganga í ýmsum tilfellum lengra en hér er kveðið á um og þá að sjálfsögðu gilda þær reglur.

Síðan spurði hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir um sparisjóðina og kannski var ég svolítið á hlaupum og áttaði mig ekki alveg nógu vel á því. Ég get einungis sagt að ekkert frumvarp er í undirbúningi um sparisjóðina núna, en það er sem sagt aðeins óljóst í mínum huga hvað það var sérstaklega sem hv. þingmaður var að leita eftir í því sambandi. (JóhS: Upplýsa um kjörin hjá sparisjóðunum.) Já, það er náttúrlega eitt af því sem kemur ekki inn á þetta.

Ég er sem sagt stolt af því að hafa lagt þetta frumvarp hér fram og þó fyrr hefði verið og vonast til þess að það eigi greiða leið í gegnum þingið. Að sjálfsögðu er þetta víðtækt og tekur á ákaflega mörgum þáttum sem varða viðskiptalífið. En þó að undirbúningurinn hafi, að mínu mati, allur verið mjög faglegur og nákvæmur og allt sem þarna er sett fram vel úthugsað veit ég að nefndin þarf að gefa sér allgóðan tíma til þess að fara yfir málið.