132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Útvarpslög o.fl.

54. mál
[18:43]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar til að spyrja hv. flutningsmann nokkurra spurninga. Í fyrsta lagi langar mig að spyrja hvers vegna hv. þingmenn gera ráð fyrir að þetta útvarp sem þeir vilja selja eigi að heita áfram Ríkisútvarpið, hvort mönnum finnist það við hæfi að einkavætt fyrirtæki á markaðnum beri þetta nafn og hvort þeir hafi ekki hugsað um að hafa þyrfti annað nafn á því.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hvort yfirlýsingar menntamálaráðherra um að ekki standi til að selja Ríkisútvarpið og að það sé niðurstaðan, ekki bara stjórnarflokkanna, mér skilst að það sé niðurstaða Sjálfstæðisflokksins, hvort það beri að túlka þannig að það séu einungis þeir tveir sem flytja þetta frumvarp nú sem eru á annarri skoðun og hvort þeir muni að lokum styðja frumvarp menntamálaráðherrans um Ríkisútvarpið sem verður afgreitt ef hæstv. ráðherra fær vilja sinn fram.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann ætli þá að styðja þennan nefskatt sem hann var að lýsa áðan.

Í fjórða lagi langar mig til að spyrja, af því að hv. þingmaður ber nú ábyrgð á því að persónuafsláttur hefur lækkað gríðarlega mikið á þeim tíma sem hann hefur stutt ríkisstjórnina, hvort ekki sé búið fyrir löngu að taka til hliðar þennan skatt sem hann er hér að lýsa að eigi að bera uppi þetta svokallaða útvarpsráð sem hér er gert ráð fyrir að verði til. Er ekki löngu búið að taka til hliðar fjármuni fyrir því?