132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Útvarpslög o.fl.

54. mál
[19:04]
Hlusta

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður segir að það frumvarp sem við hér ræðum beinist að því að miðstýra peningum á pólitískum grunni. Þannig er það í dag og þannig hygg ég að það verði ætíð. Það getur vel verið að menn geti kallað saman einhverja akademíu háskólamanna eða listamanna eða bara nefna það, ASÍ, Samtök atvinnulífsins eða einhverja aðila — það skulu alltaf einhverjir aðilar þurfa að stýra þessu fé, einhverjir aðilar þurfa að stýra útvarpsrekstrinum. Svo er spurning hvort ríkið eigi nokkuð að koma nálægt þessu. Það er líka hugsun sem er kannski hægt að hugsa til enda.

Ég held að þegar útvarpsráð sér ekki bæði um framkvæmdina og ráðstöfunina heldur bara um ráðstöfunina — það þarf að bjóða út verkefnin — verði minni hætta á pólitík heldur en er í dag. Það þarf þá að rökstyðja það af hverju þetta leikhús fær verkefni en hitt leikhúsið ekki og ef það er einhver pólitísk lykt af því þá er það náttúrlega slæmt. Í dag getur það hreinlega falið vildarleikhúsinu sínu framkvæmdina eða hreinlega gert það sjálft og haft á því hvaða pólitískan lit sem það kærir sig um, á framkvæmdinni sjálfri. Leikritið getur þess vegna verið pólitískt. Ég held að það sé minni hætta á því að útvarpsráð hafi pólitísk áhrif með þessum hætti heldur en nú er.

Hv. þingmaður talaði um sátt um Ríkisútvarpið. Það eru 9% þjóðarinnar sem borga ekki útvarpsgjald þó þau eigi að gera það. Það er öll sáttin. Og hinir sem borga eru margir hverjir mjög óánægðir með innheimtuaðgerðirnar þannig að ég held að RÚV sé þegar orðið ansi fjarlægt eigendum sínum. Eigandinn er ríkið. Ríkið er einn lögaðili sem á Ríkisútvarpið. Þjóðin er allt annar hlutur.