132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

57. mál
[19:43]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka undir ákveðin sjónarmið í því frumvarpi sem hv. þm. Halldór Blöndal hefur mælt fyrir í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem hv. þingmaður lagði áherslu á, að fuglar í náttúru Íslands eru óaðskiljanlegur hluti hennar og við getum ekki umgengist þá eins og eign okkar, við getum ekki gengið í þá stofna eins og ræktað búfé og veitt þá okkur til matar eða á annan hátt fénýtt þá. Við höfum mjög takmarkaða heimild til þess. Auk þess eru fuglarnir hluti af náttúrunni sem við þess vegna markaðssetjum og fénýtum okkur eins og hún birtist okkur. Eitt mesta aðdráttarafl erlendra ferðamanna er einmitt fuglalíf á Íslandi, ef hægt er að sýna það, nálgast það á þann hátt að fuglarnir upplifi ekki neina ógn af því. Þá verða þeir einmitt hluti af þessari fallegu náttúru sem við njótum og bjóðum öðrum að sjá.

Þessi sjónarmið hafa ekki verið virt nema að litlu leyti. Umgengni við náttúruna og réttur ferðaþjónustunnar hvað þetta varðar hefur fengið takmarkað rúm í íslenskri löggjöf, ekki síst umgengni við fugla sem hluta af náttúrunni. Þau atriði sem hv. þingmaður kemur inn á í 2. gr., varðandi merkta vegaslóða, breytingar á 17. gr. sem staðfestir að fara megi á vélknúnum farartækjum um vegi og merkta vegaslóða. Ég tek heils hugar undir þau orð hv. þingmanna með að merktir vegaslóðar eru orðnir býsna margir hér á landi og segja í raun ekkert. Það má nánast keyra hvar sem er þar sem á annað borð hafa einhvern tíma farið vélknúin ökutæki. Ég er sammála því að taka burt það sem segir um merkta vegaslóða. Enda veit ég ekki til að vegaslóðar hafi neina stjórnsýslulega stöðu í vegalögum, að þar sé skilgreining á vegaslóða. Í þessum lögum ættum við því að halda okkur við skilgreinda vegi samkvæmt vegalögum. Ég minnist þess ekki að vegaslóðar eigi þar sérstaka skilgreiningu. Það er alveg fráleitt að taka inn í lög eitthvað sem vart er til og er meira skilgreiningaratriði í hugum fólks.

Varðandi endurnar og aðra fugla sem taldir eru upp í 3. gr., þar sem vísað er til stokkandar, urtandar, rauðhöfðaandar, duggandar, skúfandar, hávellu og toppandar, þá eiga þessir fuglar að mínu viti að vera friðaðir. Sama gildir um fleiri fugla sem taldir eru upp og hv. þingmaður talar um að takmarka veiðar á eða stytta veiðitímabil. Ég vil t.d. nefna að hvítmáfur er að hverfa af landinu. Hann lætur undan síga, er að hverfa og ætti að njóta alfriðunar að mínu mati. Ég viðurkenni að ég hef minni samúð með hettumáfinum.

Ég tek einnig undir þau sjónarmið sem komu fram í frumvarpinu um veiðar á fuglum t.d. að næturlagi með sérbúnum græjum. Það finnst mér fráleitt, með nætursjónaukum eða öðru slíku. Ég tel það fráleitt. Ég hef samúð með því sjónarmiði og veiðiaðferð er menn gengu til rjúpna, sér til matar eða í þá veruna. En ég get ekki samþykkt að menn beiti allri nútímatækni til að stunda þessar veiðar. Það er fráleitt þótt þær séu að öðru leyti heimilaðar innan einhverra marka.

Mig minnir að hv. þingmaður hafi á síðasta þingi flutt frumvarp, og vikið að því áðan, um að ákveðin svæði yrðu alfriðuð fyrir veiðum og ágangi sem truflaði fugla sem þar eru. Við þekkjum staði sem eru fuglum mjög dýrmætir um vetur, sumar, vor og haust og ættu að njóta fullkominnar friðunar.

Varðandi eggjatínslu er áréttað í frumvarpi hv. þingmanns að friða varp kríu, silfurmáfs og hvítmáfs. Ég styð það afdráttarlaust. Ég hef minni samúð með hettumáfinum, ég verð að segja það. Mér finnst hettumáfurinn of mikill aðskotafugl. Hann beitir aðra fugla nokkrum yfirgangi og ég hef minni samúð með honum.

Ég tek undir þau sjónarmið sem hv. þingmaður reifaði varðandi rjúpuna. Það er ástæðulaust, finnst mér, að rýmka heimildir til veiða á rjúpu. Þau fyrirheit höfðu verið gefin að stöðva ætti veiðar á rjúpu í ákveðið árabil, mig minnir að það væru tvö eða þrjú ár. Svo var það aftur stytt um eitt ár, án þess að forsendur væru fyrir því, a.m.k. var rjúpan ekki spurð. Það er víst. Það voru ekki hagsmunir rjúpunnar, sem fugls í náttúru Íslands, sem þar voru hafðir að leiðarljósi. Ég legg samt áherslu á að verði veiðar á rjúpu leyfðar áfram þá verði þær takmarkaðar enn meira, bæði hvað varðar veiðitímann og einnig innan vikunnar, að menn fái ekki veiðileyfi alla daga vikunnar. Þær veiðar ættu að vera mjög takmarkaðar. Þau skotvopn sem notuð eru ættu líka að hafa takmörk, menn mættu ekki nota marghleypur á þeim veiðilöndum. Ekki ætti að nota vélknúin tæki til að þeytast á eftir rjúpunni o.s.frv. Menn mundu því ganga til rjúpna innan þeirra skilyrða sem um það eru sett.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara í langa ræðu um þetta en tek undir mörg af þeim sjónarmiðum sem hv. þm. Halldór Blöndal talaði um varðandi rétt fuglanna. Þeir eiga sinn sjálfstæða rétt. Þótt þeir geti ekki talað þá ber okkur að hugleiða hvernig réttur þeirra sé best varðveittur sem hluta af náttúru landsins. Ég læt máli mínu lokið en ítreka að þau nærfærnissjónarmið í þessu frumvarpi og hjá hv. þingmanni, gagnvart fuglum í okkar lífríki, finnast mér góð og ég virði þau.