132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Áfengislög.

71. mál
[20:51]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi síðustu spurninguna treysti ég mér ekki til að svara henni á þessu stigi. Ég hef ekki lagst rækilega yfir það, ég verð að játa það, en skal með glöðu geði leggjast yfir þá hlið málsins. Það er spurning hvort það sé rétt að tala um að herða á banninu sem ég gerði reyndar einnig í máli mínu og hef stundum gert vegna þess að þegar allt kemur til alls er bannið við auglýsingum á áfengi alveg fortakslaust í lögunum. Hins vegar hafa menn fundið smugu, gat í lögunum til að brjóta gegn markmiðum laganna og hafa auglýst áfengi þess vegna. Reyndar tel ég að ef stjórnvöld hefðu viljað fylgja lögunum eftir hefði verið hægur vandi að gera það. Þá hefðu þau getað gert það á grundvelli laganna eins og þau liggja fyrir. Lögin eru brotin á ýmsum sviðum, t.d. í auglýsingatímum Ríkisútvarpsins. Þau eru iðulega brotin þar.

Ég hef lagt fram fyrirspurn sem kemur fyrir þingið innan skamms þar sem ég beini þeirri spurningu til hæstv. menntamálaráðherra á hvern hátt stjórnvöld hyggist framfylgja lögunum að þessu leyti. Lögin, ásetningur og markmið laganna eru alveg kýrskýr. Hins vegar er það eindreginn ásetningur bjórframleiðenda og sölumanna áfengis að komast fram hjá lögunum. Það hafa þeir komist upp með. Markmið frumvarps okkar er að stoppa upp í það gat sem gerir þetta mögulegt.