132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Lög um fæðingarorlof – undirbúningur að fjölmiðlafrumvarpi.

[12:07]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Hér hefur verið hreyft stóru máli en ég ætla að leyfa mér að víkja að öðru máli sem ég tel ekki síður vera mikilvægt, eitt af stærri pólitískum hitamálum sem hafa verið í umræðunni að undanförnu, þ.e. undirbúningur að fjölmiðlafrumvarpi.

Ég vissi, frú forseti, ekki betur en um það væri mjög góð þverpólitísk sátt að vinna í sameiningu allra pólitísku flokkanna að undirbúningi frumvarps til þess. Það gerist ekki mjög oft að þverpólitísk sátt náist hér.

Nú hefur það hins vegar gerst, sem kom mér mjög á óvart eftir að fyrsti fundur svokallaðs fjölmiðlahóps með lögfræðingum kom saman í gær í mikilli þverpólitískri sátt, þá hefur komið í ljós að fulltrúar Samfylkingarinnar hafa farið fram úr hinni þverpólitísku sátt og flutt í eigin nafni hluta af þeim tillögum sem fjölmiðlahópur hafði unnið. Þetta tel ég, frú forseti, vera afskaplega einkennilegt af því að ég taldi að hér væri um pólitíska sátt að ræða í afar viðkvæmu máli. Í framhaldi af þessu hlýtur maður að spyrja hvort megi eiga von á fleiri sérmálum Samfylkingarinnar út úr hinni pólitísku sátt.

Maður hlýtur líka að spyrja hvort Samfylkingin hafi sagt sig úr þessari pólitísku sátt. Ég vek athygli á að innan hins þverpólitíska hóps sem vinnur með lögfræðingum ráðuneytisins ríkir mjög góð sátt og einmitt þess vegna kemur á óvart að það skuli koma sérstaklega í nafni nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar frumvarp og efni í greinargerð með því er fyrst og fremst byggt á vinnu fjölmiðlahópsins. Ef Samfylkingin hefur ekki sagt sig úr þessari þverpólitísku samvinnu tel ég þessi vinnubrögð vera afar óeðlileg og segi eins og hér hefur áður verið sagt: Svona gera menn ekki.