132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Lög um fæðingarorlof – undirbúningur að fjölmiðlafrumvarpi.

[12:11]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil sérstaklega mótmæla því sem hér er haldið fram af einum hv. þingmanni að stjórnarandstaðan og þá Samfylkingin eigi einhvern einkarétt á því að koma hér upp um störf þingsins og lætur út úr sér í pontu að þingflokksformaður Framsóknarflokksins hafi verið sendur hér upp. Hvers konar málflutningur er þetta? Að sjálfsögðu eiga stjórnarliðar jafnan rétt og aðrir þingmenn á að taka upp mál undir liðnum Athugasemdir um störf þingsins og hvað þá í jafnstóru máli og þetta er. Það er búið að ræða um fjölmiðlamálin margoft úr þessum stól, margoft og núna kemur í ljós að þessi svokallaða sátt sem menn bjuggust við, það er ekki betur séð en hún sé rofin af Samfylkingunni. Það er því ekki hægt að túlka þetta öðruvísi en svo að allt sé upp í loft hjá stjórnarandstöðunni. Ég bíð bara spennt eftir því að heyra hvað Vinstri grænir segja um málið, hvort þeim finnist þetta sniðug vinnubrögð.

Ég ætlaði að koma hér upp vegna þeirra orða sem hafa fallið um fæðingarstyrkinn. Ég heyri ekki betur en hv. þm. Katrín Júlíusdóttir þurfi ekki að vera svona geysilega óánægð með þau svör sem fram hafa komið frá hæstv. félagsmálaráðherra. Hér hafa verið dregin fram þau rök sem gilda um jafnræðisregluna, að skoða eigi aðstæður námsmanna eins og aðstæður annarra, þ.e. maka þeirra, og færð hafa verið rök fyrir því.

Það hefur líka komið fram að verið er að skoða það í félagsmálaráðuneytinu hvort gera eigi breytingar á lögunum. Ég veit að það er samstarf við námsmenn um það. Ég held því að hv. þingmaður geti bara verið nokkuð ánægð með þau svör sem komið hafa úr þessum stól.