132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

.

[12:19]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er fyllilega réttmætt að þingflokksformaður Framsóknarflokksins komi hér upp og geri athugasemd við það að sex þingmenn Samfylkingarinnar hafi lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti. Ég sat í fjölmiðlanefnd og inntakið í þessu frumvarpi er eitt af aðalmálunum sem fjölmiðlanefndin fjallaði um á fundum sínum. Þetta var kannski mikilvægasti hlutinn af þeirri sátt sem náðist að við urðum sammála um að setja ætti reglur um dreifiveitur, setja ætti reglur um flutningsskyldu og flutningsrétt. Ég sagði í ræðu þegar við ræddum þessa skýrslu að þetta teldi ég vera ein stærstu tíðindin í skýrslu fjölmiðlanefndar, það var einmitt þetta.

Núna kemur Samfylkingin fram með þetta frumvarp, þingmenn hennar hafa greinilega verið að lesa fjölmiðlaskýrsluna og eru núna að tína úr henni bestu bitana til að geta komið (Gripið fram í.) með frumvarp eins og þetta hér, leggja það síðan fram til að reyna að eigna sér heiðurinn. Svona vinnubrögð eru alveg með ólíkindum. Þetta er hreinlega ekki líðandi. Hér er verið að slíta í sundur friðinn og traðka á honum.

Ég var á fundi í gær með þessum fjölmiðlahóp í menntamálaráðuneytinu. Þessi mál eru öll í mjög góðum farvegi en þá gerist þetta og ég hlýt að spyrja: Hefur formaður Samfylkingarinnar enga stjórn á sínu þingmannaliði? Hún var líka í þessari fjölmiðlanefnd. Hvernig stendur á því — hún ætti að koma hér upp á eftir og skýra mál sitt — að hún leyfir þingmönnunum að gera þetta? Þetta er lýðskrum af verstu sort, þetta er ekkert annað. Verið er að taka bestu bitana úr fjölmiðlaskýrslunni og reyna að eigna þá Samfylkingunni. Við unsnum öll í þessari fjölmiðlanefnd sem komum að henni, unnum þar öll af heilindum og ég hélt að Samfylkingin hefði gert það líka. En ég verð að segja það núna að ég er farinn að fyllast mjög alvarlegum efasemdum um að svo hafi verið.