132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Embætti útvarpsstjóra.

283. mál
[12:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en tek fram vegna þess sem hér hefur komið fram að fyrirspurn mín er um ráðningarferlið og auglýsinguna en ekki um persónuna sem valin er. Ég hef ekki sett neina skoðun fram um það. Fyrirspurnin snýst ekki um persónuna.

Það sem ég dreg fram, virðulegi forseti, er að samkvæmt þeim reglum sem ríkið hefur sett sér eiga fyrir fram að liggja fyrir kröfur um hæfni og menntun. Það á að koma fram í auglýsingu hvaða skilyrði sett eru og hvers konar hæfni er verið að sækjast eftir. Það kom fram í svari hæstv. ráðherra hvað ráðherrann lagði til grundvallar mati sínu. Ég geri svo sem engar athugasemdir við það að öðru leyti en því að það er rökstuðningur sem kemur fram eftir að ráðning hefur farið fram. Það getur aldrei orðið neitt annað en rökstuðningur utan um niðurstöðu en ekki aðferð til að komast að niðurstöðu sem ætlast er auðvitað til af þeim sem settu þessar reglur, bæði lögin um réttindi og skyldur og þær reglur sem settar eru á grundvelli þeirra svo að ég vísi ekki líka til starfsmannareglnastefnu ríkisins.

Það er dálítill galli, virðulegi forseti, hvað forstöðumenn og ráðherrar hafa oft og tíðum frjálsar hendur um hvað þeir leggja til grundvallar við ráðningu í starf. Ég er t.d. með auglýsingu um stöðu yfirhjúkrunarfræðings landlæknisembættisins sem birtist á svipuðum tíma og auglýst var eftir útvarpsstjóra. Þar var farin hin leiðin, gerðar svo ítarlegar kröfur um menntun og reynslu að hringurinn er þrengdur svo mikið í skilyrðunum að ekki nema örfáir, kannski bara einn, komu til greina í starfið. Þar virtist í raun sem verið væri að semja skilyrði (Forseti hringir.) til að tryggja fyrir fram einhverja tiltekna niðurstöðu.