132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Embætti útvarpsstjóra.

283. mál
[12:44]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka sérstaklega fyrir þá miklu velvild sem hv. þingmenn hafa sýnt varðandi ráðningu mína í starf útvarpsstjóra. Ég er algerlega sammála þeim, ég tel Pál Magnússon hafa verið hæfastan í það starf og þess vegna réði ég hann. Það sama gildir kannski um aðra menningarstofnun, ég held að ákaflega vel hafi tekist til með ráðningu nýs þjóðleikhússtjóra, í þá mikilvægu menningarstofnun. Að mínu mati eru allir sammála þeirri ráðningu líka. Þó að menn tali um að ekki sé nægilega niðurnjörvað fyrir fram hvað liggi til grundvallar skiptir mestu máli að fá hæfasta og besta fólkið.

Að sjálfsögðu er það þannig — og ég vísa þar með í lög — að engar kröfur eru um það í lögum um Ríkisútvarpið að uppfylla þurfi einhverja ákveðna kröfu til að hljóta starf útvarpsstjóra. En hvað þýðir það þá almennt séð varðandi ráðningu í slík störf? Að sjálfsögðu kemur þá til kasta hinna almennu reglna stjórnsýsluréttarins og að sjálfsögðu þurfti ég að byggja ákvörðun mína varðandi ráðningu Páls Magnússonar á málefnalegum sjónarmiðum. Ég tel það tvímælalaust ekki leiða af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins að stjórnvöldum sé ávallt skylt að gefa umsækjendum kost á að gera nánari grein fyrir sjálfum sér í starfsviðtölum eða afla á annan hátt frekari upplýsinga um starfshæfni þeirra. Hvort þörf er á slíkum viðtölum eða frekari upplýsingum ræðst af því hvaða upplýsinga er talið nauðsynlegt að afla til að málið teljist nægilega upplýst með tilliti til þeirra sjónarmiða sem sá er skipar, þ.e. ráðherra, í viðkomandi embætti hefur ákveðið að byggja á við val sitt á milli umsækjenda. Ég rakti það í mínu fyrra svari hvaða málefnalegu ástæður lágu því til grundvallar að ég réði þann farsæla og góða útvarpsstjóra sem nú er, Pál Magnússon.